Æfing við hendi – Við taum, stutt fet, söfnun

Við hvetjum hestinn fram í jafnt taumsamband þangað til hann byrjar að stytta afturfótaskrefin og fella lend. Hann kemur í hnakkabeygju og verður alveg léttur.

 

Við staðsetjum okkur við hliðina á hestinum þannig að öxl okkar sé á móts við mjaðmarhorn hestsins. Höfum tauminn uppi og höldum um hann með hendinni sem er nær hestinum. Ytri taumurinn liggur fyrir aftan litlafingur en innri taumur liggur á milli vísifingurs og þumalfingurs. Það er mikilvægt að höndin sé stöðug og þess vegna látum við upphandlegginn liggja að síðunni og tengjum höndina þannig við efri hluta líkamans. Við höldum á písk í fjærhendi og látum hann standa fram úr greipinni eins og tónsprota. Þannig getum við bæði fært hann fram fyrir hestinn til að hægja á honum eða stöðva og snert á honum bóginn til að hann færi sig frá okkur.


Til að hvetja hestinn fram flytjum við pískinn upp fyrir taumhöndina, yfir olnbogann og að lend hestsins. Ef hesturinn þekkir A-B æfinguna og kann bæði að bregðast við hvetjandi og hamlandi ábendingum, óháðum hvorri annarri, þá á okkur að vera óhætt að hvetja hann fram í taumsamband án þess að það valdi misskilningi, togstreitu og uppnámi.

Hesturinn skal bregðast við hvetjandi ábendingum aftan frá og hamlandi með taumsambandi framan frá án þess að ryðjast fram í tauminn. Hann heldur léttleikanum og ef hönd okkar er stöðug og næm, sem er hestinum nægileg umbun, þá fellir hann höfuðið og kemur í hnakkabeygju. Til að hesturinn haldi léttu taumsambandi og við taum er mikilvægt að hann sé í góðu jafnvægi og ekki með of mikinn þunga á framhluta. Þess vegna þarf hann að vera á mjög hægu feti, stytta skref afturfóta og fella lend.

 


Mesta mögulega söfnun við hendi - Þyngd hvílir á beygðum afturfótum

Í þessari miklu nánd við hestinn eigum við fljótt að sjá og finna hversu mikilvægt það er að hafa stöðuga og næma hönd á taumnum. Hversu áhrifaríkt það er ef hestur fellir lend og léttir þunga af framhluta. Þá upplifum við hest sem léttist og kemur í höfuðburð sem við köllum að setja sig við taum af því að hann kýs það sjálfur en við þvingum hann ekki til þess. Við höfum náð árangri!


Reynir visar hesti nidur

Þegar árangri er náð skal lofa hestinum að teygja sig niður og fram og lengja fetið til umbunar.