Tölt á hringnum eða baug, vinnuhöfuðburður og yfirlína
Til að auðvelda hestinum að fá sterka yfirlínu og virkan afturhluta getur verið árangursríkt að ríða honum á hring í vinnuhöfuðburði. Vinnuhöfuðburður er nær því lóðréttur höfuðburður með frekar lágri reisingu. Hálsinn er lykillinn að virkni baks og afturhluta. Það verður auðveldara að létta hestinn niður í æskilegan höfuðburð og reisingu ef við ríðum hestinum á hringnum eða á 10 metra baug eftir því hvað á betur við jafnvægi hestsins.
Við notum sömu ábendingar og við notuðum við höfuð inn í baug og baugur stækkaður. Þar hafa ytri taumur og innri fótur knapans mikilvæg hlutverk. Ytri taumur heldur við höfuðburði og hraða, staðsetur innri afturfót og leiðir framhluta á feril hringsins. Hesturinn beygir sig um innri fót knapans sem einnig heldur við léttleika á innri taum. Færir hann innri framfót hestsins undir þunga hans. Ytri fótur okkar hamlar afturhluta hestsins að færast út af ferli hringsins og hvetur hann hæfilega fram ásamt innri fæti og sæti. Innri taumur mótar og heldur hæfilegri beygju en verður samt oftast léttur (slakur). Til að einfalda þetta má segja að við gerum ráð fyrir að hesturinn sé í jafnvægi, hæfilega beygður,léttur, hæfilega reistur og í hnakkabeygju. Þá færa hendur knapans og taumar framhluta hestsins til hliðar (út og inn) og fætur knapans færa afturhlutann. Þessi æfing hefur þann tilgang að virkja bak og afturhluta þar sem hálsinn hefur lykilhlutverk. Æfinguna ber að nota í hófi. Ef hún er ofnotuð getur þunginn (þyngdarpunktur) færst of mikið fram. Þess vegna er rétt að reisa hálsinn hæfilega þegar árangri er náð því reising hefur mest áhrif á þyngdarpunkt ásamt virkum afturhluta. Þyngdarpunktur er á réttum stað þegar afturfætur taka við hæfilegum þunga af framhluta.