Stökkæfingar

Þegar við byrjum að ríða stökk er rétt að haga aðstæðum þannig að við fipum ekki hestinn með því að hafa of mikið taumsamband, sérstaklega á innri taumnum.

Jafnvægislausan hest sem ber of mikinn þunga á framhluta eða annarri hliðinni á ekki að reyna að setja á stökk. Við þurfum sjálf að vera í jafnvægi. Til að auðvelda okkur er gott að haga aðstæðum þannig að stefnan og hraði afmarkist svo að við þurfum ekki taum en getum einbeitt okkur að því að vera í jafnvægi og hvetja hestinn upp á stökk.

Best er að gera stökkæfingar á litlum afmörkuðum hring sem er 20 metrar í þvermál og hafa hringinn líka afmarkaðan að innan svo hesturinn hafi örugga stefnu og grípi stökkið yfirvegað og fari ekki í uppnám eða á of miklum hraða.

Áseta skal vera hálflétt og taumhaldið svonefndur slakur taumur sem er hafður slakari en hinn fyrrnefndi langi taumur sem var í sambandi vegna þunga síns.

Við hvetjum með fótum þar sem ytri fótur er hafður aftar og leggst fyrr að en sá innri sem hvetur við gjörð og kemur í kjölfarið.

Til að bæta við fótahvatninguna má nota hvetjandi hljóð. Hafa skal pískinn við innri bóg í upphafi og snerta hestinn augnabliki á eftir fóthvatningunni ef þurfa þykir.

Við látum hestinn brokka nokkra hringi á meðan hann er að samþykkja hringinn og við erum að finna gott jafnvægi í hálfléttri ásetu og gera tauminn slakan.

Síðan hvetjum við hann upp á stökk. Ef hesturinn er í slæmu jafnvægi, of mikið á framhluta eða jafnvel á skeiði er rétt að hvetja hann á stökkið af feti.

Þegar hesturinn hefur tekið stökkið skal láta hann stökkva hálfa umferð ef hann stekkur vel.

Síðan ríðum við brokkið þangað til hesturinn finnur gott jafnvægi á ný og setjum hann þá aftur upp á stökk.

Við endurtökum þetta á hinum ýmsu stöðum á hringnum þangað til hann fer að taka stökkið fúslega alls staðar. Þá látum við hann stökkva allan hringinn.

Við æfum þetta jafnt á báðar hendur en stillum hringafjölda og kröfum í hóf eftir hestgerð og þjálfunarstigi. Gott er að enda æfinguna á því að láta opna hringinn og hleypa rösklega út úr honum.

Æfingin er til að hesturinn læri að taka hreina snjalla stökkskiptingu í jafnvægi og við lærum og æfumst í að gefa áhrifaríkar ábendingar til stökksins og leiðrétta jafnvægi hestsins ef það raskast.