Francois Baucher
Francois Baucher (1796-1873) var mikilsvirtur kennari sýningar- og sirkusreiðmaður. Hann skrifaði bækur og taldi sig hafa þróað vissan reiðmennskuskóla.Hann var umdeildur, aðallega vegna þess að æfingar hans voru mjög ýktar. Hann lét hesta stökkva á staðnum og aftur á bak. Lét þá skipta frá hægra stökki yfir á vinstra stökk í hverju skrefi sem kallað hefur verið fljúgandi stökkskiptingar. Fyrir þetta var hann talinn hestaníðingur og öfuguggi reiðmennskunnar af þeim sem kepptu við hann á þeim tíma.
Þá var reiðmennskan eins og trúarbrögð og fylgjendur Bauchers kallaðir Baucheristar. Í raun var Baucher sanngjarn snillingur. Hann aðhylltist barokk reiðmennsku sem var í hávegum höfð í Frakklandi, Portúgal og á Spáni. Hún var ólík þýskri og enskri reiðmennsku af því að meira er lagt upp úr léttleika í taumsambandi, næmum hvatningum og miklum burði afturfóta, eða söfnun. Enda eiga hestarnir sem þeir nota auðveldara með að bera sig sjálfir og eru með gott jafnvægi því þeir eru styttri og fjörmeiri.
Enska og þýska reiðmennskan er aftur á móti þyngri, meira er riðið á ábendingum og af kröftum og hestarnir eru afkastameiri á gangi, millibrokki og stökki.
Auðvitað sjáum við undantekningar þar sem eru vel riðnir hestar, léttleiki í taumhaldi og næmar ábendingar. En hitt sést sorglega oft hjá knöpum og kennurum sem eru meðaljónar.
Af þessum dæmum dreg ég þá ályktun að barokk reiðmennskan sé skyldari íslenskri reiðmennsku. Að undirbúa og ríða tölt er sláandi líkt því að undirbúa hest fyrir passage og piaffe sem lýst var í ágripi af sögu reiðmennskunnar í fyrri köflum á þessari síðu. Áhersla er lögð á léttleika í taumum. Hesturinn er hár á herðar og lágur á lend. Makkinn hringaður og hreyfingarnar háar og öflugar. Hesturinn er með sterka yfirlínu og taumhaldið virkar á hálssetninguna og afturhlutann. Bakið er eins og gripið sé yfir kött.
Baucher var með dálítið aðra hestgerð en hina almennu barokkhesta sem fyrirrennari hans við Versali, Guardinier notaði. Hestar Bauchers voru meira blandaðir arabískum hestum. Þeir voru fjörmiklir en höfðu ekki eins gott jafnvægi. Hann sagði líka að það væri hægt að hjálpa öllum hestum. Ef upp kom spenna eða vörn í hesti aðskildi hann kraft og hreyfingu með því að slaka og losa um spennuna í einstaka líkamshlutum á lítilli ferð, kyrrstöðu eða við hendi. Hann notaði æfingar eins og að fullsveigja hálsinn, kyssa ístöðin eins og við köllum það. Þá eru höfuð og háls gerð óháð öðrum líkamshlutum.
Baucher kenndi að ríða með hendur án fóta og fætur án handa. Það sem hann átti við er að við eigum ekki að hvetja hest í æfingu eða gangtegund áður en léttleikinn er kominn. Baucher var líka mjög sanngjarn við hesta sem ekki áttu auðvelt með söfnun og að taka burð á afturfætur því það fer auðveldlega í skapið á slíkum hestum ef þeir eru krafðir af ósanngirni. Hann notaði mikið æfingar eins og að stækka baug og sniðgang en þá er hestinum riðið meira beint áfram en um leið jafn sveigðum og hann var á baugnum. Fyrst reið hann á fjórum sporaslóðum með meiri sveigju í hálsi en í bol og léttum burði á innra afturfæti. En færði svo hestinn smátt og smátt yfir í það að ganga á þremur sporaslóðum með meiri burði á innra afturfæti og þar af leiðandi meiri söfnun.
Æfingarnar, fljúgandi stökkskiptingar og að stökkva afturábak, sem hann var svo umdeildur fyrir og fólki talin trú um að hann hefði þvingað hestinn til, urðu reyndar til af sanngirni við hestinn þegar hann var að æfa brokk á hægri ferð og piaffe í kyrrstöðu. Hinir bráðólötu fullblóðshestar hans vildu hoppa og ólmast á stökki og í staðinn fyrir að þvinga þá til að brokka leyfði hann þeim hoppið og úr varð stökk á staðnum. Og vegna þess að hestar hans voru ofurléttir á taum gat hann kennt þeim að stökkva nokkra sentímetra afturábak með því að halda örlítið við þá.
Ég ráðlegg hestafólki að lesa gamlar bækur til jafns við nýjar. Læra nýja hluti og fá staðfestingu gamalla snillinga á því sem nú tíðkast í reiðmennsku. Við erum ekki að finna upp hjólið og það liggja margar leiðir til Rómar.