Að stækka bauginn (Undirbúningur fyrir opinn sniðgang og krossgang)
Við förum að stækka bauginn þegar orðið er auðvelt að ríða hann þannig að við getum sveigt höfuð hestsins bæði inn og út og er það undirbúnings æfing fyrir opinn sniðgang.
Þegar innra taumsamband er alveg létt tökum við upp virkt ytra taumsamband og fáum hestinn jafnbeygðan með höfuð inn í bauginn. Hesturinn skal vera hæfilega beygður um þinn innri fót. Þá skal fóturinn færður ½ handbreidd aftar og á að virka hæfilega hliðarhvetjandi, benda hestinum á að færa innri afturfót undir þyngd sína, ytri fótur er færður handbreidd aftar og heldur afturhluta hestsins á ferli baugsins sem á að stækka.
Til að fá einfalda og góða yfirsýn yfir vinnu með beygðan hest í góðu jafnvægi er rétt að hafa alltaf í huga að það eru hendur og taumar sem færa framhluta á léttum hesti til en fætur knapans færa afturhluta. Ytri fótur knapans liggur fyrir aftan gjörð og hamlar að afturhluti hestsins flytjist of mikið út úr baugnum.
Við notum sömu ábendingar og gerum svipaðar kröfur þegar við ríðum krossgang en höfum hestinn beinan með örlitla stillingu inn á höfði og hnakka.
Hann skal víkja jafnt til hliðar eins og hann gengur fram með alla fætur og stíga með innri fætur fram og yfir ytri fætur eða í kross og af því er nafnið dregið.