Æfing við hendi – Að ganga afturábak

Undirbúningur fyrir að ríða hestinum afturábak. Þá er hesturinn hvattur fram að taumsambandi sem hamlar því að hann stígi skrefið fram. Þá stígur hann skref afturábak í hornstæðri hreyfingu. Þegar við kennum hesti fyrstu skrefin afturábak með taumsambandi og í eftirgjöf eða hnakkabeygju er rétt að staðsetja sig við hlið hans og snúa í sömu átt. Við höfum tauminn í nærhendi en pískinn í þeirri sem er fjær.

 

Ef hesturinn gengur ekki skrefið afturábak þegar hann er kominn í réttan höfuðburð og við hvetjum hann gætilega fram að stöðugu taumhaldi má hvetja létt á þann framfótinn sem er framar stendur eða framan á bóginn. Mikilvægast er að umbuna hestinum fyrir alla viðleitni hans til að stíga skref afturábak með því að láta slakna á taumsambandinu þegar hann svarar. Þegar hesturinn svarar orðið vel og tekur hvert skref fyrir sig er rétt að láta hann taka fleiri skref hvert á fætur öðru. Það þarf alltaf meira áreiti við fyrsta skrefið en léttist svo þegar hesturinn fer að skilja æfinguna. Við undirbúum þá þriðja skrefið þegar hesturinn er að taka annað skrefið þó þannig að við getum látið slakna á taumnum á milli, og það fjórða í því þriðja, þannig að hann stoppar ekki milli skrefa. Þannig kemur flot á æfinguna.

 

Við verðum leikin í að beita hamlandi ábendingum og hvetjandi ábendingum samverkandi, saman en ekki samtímis. Þessi æfing bætir taumsamband og kennir hesti að fella lend með því að gefa eftir í liðum afturfóta og hún styrkir einnig forystuhlutverk okkar.