Víkja fram og til hliðar

Þessi æfing felst í því að láta hestinn víkja fram og frá okkur á litlum baug eða ferli í kringum okkur. Hann skal kjósa að svara taumhaldinu sem vísar honum fram þegar hann fær hvatningu. Við notum enda vaðsins til þess að hvetja hestinn fram, mikilvægt er að vera nákvæm og senda hvatninguna í átt að þeim líkamshluta sem við viljum færa. Fá síðan umbun fyrir þegar slaknar á taumnum.

Við stöndum til hliðar við hestinn og höldum á megninu af taumnum sem er vel upp gerður og tengdur í múlinn, með hendinni sem er framar við hestinn. Með hendinni sem er aftar við hestinn höldum við á hinum enda taumsins og látum ½ til 1m af honum standa fram úr greipinni.

Við tökum upp samband með taumnum sem er tengdur í múlinn og gefum hestinum stefnu.

Ef við viljum vinna upp á vinstri hönd er það vinstri hönd okkar sem er framar og gefur hestinum stefnuna.

Með endanum sem stendur fram úr greipinni á hægri hendinni, sem er aftar hvetjum við hann með því sveifla eða hreifa endann í átt að bóg eftir því hversu næmur hesturinn er.

Að öllum líkindum tekur hann á móti taumhaldinu í fyrstu af því við erum frekar framarlega til að hann geti brugðist við af eðli sínu, en í því felst æfingin.

Að hesturinn kjósi að svara taumhaldinu og fá síðan umbun fyrir þegar slaknar á taumnum og áreitið tekið af, eftir að hann hefur tekið skrefið fram og örlítið til hliðar.

Þegar við skiptum um hönd og eða ef hesturinn streitist á móti ýtir á tauminn frá okkur, tökum við markvisst í hann og sendum jafnframt enda taumsins í átt að afturhluta hestsins.

Það að hesturinn fær áreiti að afturhluta verður til þess að hann færir afturfætur undir þunga sinn og það léttir taumhaldið sem auðveldar okkur að láta hestinn snúa að okkur og fá umbun fyrir. Eftir því hvort hann kemur óboðinn inn eða að okkur eftir snúninginn. Látum við hann víkja skrefið aftur.

Ef hann hinsvegar víkur í uppnámi aftur á bak frá okkur bjóðum við honum skrefi að okkur og látum þá vel að honum.

Þessi æfing er góð undirbúnings æfing fyrir að setja hest á baug, þar sem hann víkur fram og í góðu jafnvægi á fram og afturhluta frá okkur.

Einnig er hún góður undirbúningur að setja hest á ferhyrning þar sem hann fær að rétta sig af til umbunar og að endurnýja jafnvægið.

Síðast en ekki síst er þessi undirbúningur góður til að gefa hesti sjálfstæða stefnu í gegn um hlið að yfir eða upp á hindrun t.d. pall sem er 40 til 50cm á hæð.
Það er ferli sem gefur okkur möguleika á að gera hest hlýðinn og sjálfstæðan af því hann treystir okkur. Fyrir hest að læra á þennan hátt gefur okkur tækifæri á að láta hestinn vita svo ekki verði um villst þegar hann bregst rétt við.
Hann fær takmark nær árangri og fær umbun fyrir. Pallurinn gefur okkur færi á að umbuna meira en bara slakan taum eða að aflétta áreiti, hann gefur okkur tækifæri á að gefa hestinum góðgæti og klapp á hálsinn þegar hann er kominn upp.