Varnareðli
Varnareðli er lokaúrræði hests losni hann ekki undan áreiti sem hann kýs að flýja frá. Því beitir hesturinn aðeins ef hann er þvingaður til einhvers sem hann skilur ekki. Ef hann er beittur stöðugu tilgangslausu áreiti sem hann getur ekki flúið. Til dæmis má nefna ef hann er settur í sjálfheldu, hann finnur sársauka eða ef ofsahræðsla grípur hann.
Galdurinn við að umgangast hest á árangursríkan hátt er að lofa honum að bregðast við af eðli sínu.
Lofa honum að víkja frá til að svara flóttaeðli sínu ef hann er áreittur, til dæmis hvattur fram þegar hann er teymdur við hlið eða lofa honum að gefa eftir þegar gefin er ábending með taum, fæti eða písk í reið.
Leyfa honum að fylgja hópeðli sínu og vera í hópi með manninum þegar teymt er á eftir manni, kembt, lagt á eða farið á bak.
Grundvallaratriði er að þegar gefin er ábending/áreiti verður maðurinn að tryggja að hesturinn verði ekki hræddur eða fari í uppnám. Hann verður að skilja áreitið og þegar hann víkur frá því verður að létta því af og þá skilur hann það sem umbun fyrir viðbrögðin. Slíkt kallast jákvætt áreiti.
Eftirsóknarvert leiðtogahlutverk hlýtur að vera þar sem hesturinn hlýðir af því hann kýs það sjálfur og treystir af því hann skilur.
Oft þarf ákveðni til að ná eftirtekt og einbeitingu en það þarf samt alltaf að skilja eftir útgönguleið fyrir hestinn. Annars er hætta á að hann fari í vörn við að missa frjálsræðið.
Að skilja hest er að geta hugsað eins og hestur, gera sér grein fyrir því hvað hann skilur og hvernig hann bregst við því.
Enn fremur verður maðurinn að átta sig á að hestur hugsar ekki eins og maðurinn og því má ekki ætlast til að hann bregðist við áreiti á sama hátt og maðurinn
– Ekki dugir að reyna að „mennska“ hestinn.
Ef maðurinn lærir að skilja merkin sem hesturinn gefur og er vakandi yfir hegðun hans er auðvelt að kynnast honum. Ávallt ber að gæta fyllsta öryggis í umgengni við hesta og draga þannig úr hættu á slysum.