Kembt og hreinsað úr hófum

Binda skal hestinn á múl við fastan hlut – aldrei við lausa eða hreyfanlega hluti.

Hafa skal nægilegt pláss til athafna í kringum hestinn þegar hreinsað er úr hófum, kembt eða lagt á. 

Gæta þess að lausir hlutir séu ekki fyrir fótum og binda hestinn nægilega hátt frá jörðu þannig að fætur hans flækist ekki í taumnum.

Að bursta og kemba hesti er ekki aðeins til að þrífa hann heldur hefur öll þægileg líkamssnerting góð áhrif á framhaldið.

Velja skal rétt verkfæri til verksins td. er tenntur járnkambur hentugur fyrir gróf vetrarhár og meiri óhreinindi en bursti eða plastkambur á fínlegri sumarhár. Hárin eru burstuð slétt aftur eða niður eftir legu þeirra og bakið burstað sérstaklega ef leggja á hnakk á hestinn til að ekkert í hnakkfarinu valdi hestinum óþægindum eftir að lagt hefur verið á og knapi stiginn á bak.

Þegar fætur eru teknir upp skal allt öryggi haft í fyrirrúmi og jafnvægi hestsins haft í huga.

Þegar framfótur er tekinn upp skal snúa í sömu átt og hesturinn, nærhönd lögð á herðar hestsins og fóturinn tekinn upp með fjærhendi. Þegar fóturinn er kominn upp og hesturinn í jafnvægi skal snúa sér við.

 

Þegar afturfótur er tekinn upp skal snúið í öfuga átt við hestinn. Höndin sem er nær hestinum er lögð ofan á lend hestsins en hinni hendinni er strokið niður afturfótinn tekið um legginn neðan við hækil og fætinum lyft upp. Beðið er uns hesturinn hefur fundið jafnvægi og þá er fóturinn tekinn betur upp með báðum höndum og færður aftur þannig að hækilliður hvíli á læri mannsins og hófliður við innanvert hné.

Hreinsa skal úr hófum með hófhreinsijárni og veita eftirtekt hvort skeifur fari vel og séu fastar.