Að beisla hest

Múllinn er lagður um háls hestsins á meðan beislað er.

Fjær hendi tekur um hnakkaband höfuðleðurs beislisins og taumurinn er lagður í olnbogabót.

Höfuðleðrinu er smeygt um höfuð hestsins og því lyft hæfilega þar til mélin nema við munn hestsins.

Munnurinn er opnaður með því að setja þumalfingur nærhandar í tannlausa bil munnsins. Höfuðleðrið er dregið yfir hnakka og gengið vel frá eyrum og ennistoppi.

Sé kverkól á beislinu skal hún spennt síðast.

Ef notaður er reiðmúll skal hann lagður aftur fyrir höfuðleðrið og spenntur hæfilega.

 

Þýskur reiðmúll

Ef notaður er þýskur reiðmúll skal hafa hann óspenntan þegar lagt er við og fer nefólin á nef hestsins, framan og ofan við mélin og hnakkabandið aftur fyrir höfuðleður beislisins eins og áður sagði og síðan er hökuólin spennt.

Hæfilegt er að spenna múlinn þannig að koma megi minnst tveimur flötum fingrum á milli nefólar og nefbeins. Nefólin á að liggja það hátt á nefinu að hún sé minnst þrjár fingurbreiddir frá efri brún nasar. Þannig heftir múllinn ekki öndun hestsins.


This slideshow requires JavaScript.


 

Enskur reiðmúll

Ef notaður er enskur reiðmúll liggur nefólin undir höfuðleðrinu rétt undir kinnbeinum og spennist álíka mikið og á þýskum múl.


Enskur reiðmúll með skáreim

Ef enski múllinn er með skáreim skal hún fest framan við mélin og undir hökuna.