Taumhringur

Taumhringur er það kallað þegar hestur er látinn ganga og hlaupa í kringum manninn á hæfilega stórum afmörkuðum hring. Í þessum áfanga hefur knapinn snúrumúl eða stallmúl á hestinum og einfaldan langan taum. Einnig heldur knapinn á löngum písk (taumhringspísk).

Maðurinn stendur á miðjum hring og notar hljóðmerki með staðsetningu og líkamstjáningu til að stjórna hestinum og heldur honum á sporinu með písknum, sem nær til hestsins ef þörf er á.

Staðsetning mannsins skal vera sem næst miðju hringsins en má færast aðeins aftar og að hestinum til að hvetja fram og aðeins fjær hestinum til að hægja eða stöðva.

Til þess að setja hestinn af stað og til að halda honum á ákveðnum hraða er pískurinn færður aftur fyrir hestinn.

Notað er hæfilega hvetjandi hljóð sem passar gangtegund og hraða. Ef knapinn kýs að nota orðin fet, brokk, stökk og stans verður hann að nota mismunandi tónbrigði og tónhæð. Þannig er hesturinn settur af stað á feti með hvassari og meira hvetjandi tóni heldur en þegar sama orðið (t.d. fet) er notað til að hægja hestinn niður á fet.

Knapinn færir pískinn að miðju hestsins eða bóg ef hann vill færa hest eða halda honum á sporinu (hringferlinum).

Til þess að hægja á hestinum eða stöðva hann færir knapinn pískinn undir og fram fyrir tauminn og færir næröxlina fjær hestinum ásamt því að nota viðeigandi róandi hljóð.

Þegar snúið er við í hringnum eða skipt um hönd ber knapinn sig svipað að og þegar teymt er við hlið og snúið. Eftir að hafa stöðvað eða hægt mjög á hestinum  færir hann sig aðeins frá honum ásamt því að taka í tauminn. Með því móti býður hann hestinum inn í hringinn og um leið og hann snýr beint inn í hringinn er hann hvattur frá hinni hliðinni með písknum út á sporið í gagnstæða átt. Þá verður sú hliðin sem áður var ytri hlið að innri hlið.

Það er margt sem ávinnst með því að vinna með hest í taumhring.

  • Hestar læra að láta stjórnast og það styrkir leiðtogahlutverk þjálfarans.  Flestir hesta kynnast taumhringsvinnu strax í frumtamingu.
  • Knapinn æfist í að staðsetja sig og bregðast rétt við gerðum hestsins.
  • Öryggi er í því að láta hesta sem eru langstaðnir eða með ofurkapp hlaupa á taumhring áður en stigið er á bak.
  • Einnig er taumhringsvinna góður undirbúningur fyrir vinnu með tvöfaldan taum sem er til að bæta höfuðburð, styrkja yfirlínu og undirbúa hestinn fyrir margskonar æfingar.