Stigið á og af baki

Byrja skal á að leggja niður ístöðin sem hingað til hafa legið yfir hnakkinn.

Taumurinn er lagður upp og tekið um hann báðum höndum. Hann liggur á milli baugfingurs og litlafingurs og upp í gegnum lófann.

Höndin sem liggur yfir hnakkinn heldur um hnépúðann hinum megin. Gæta þarf þess að hafa jafnt og ekki of  langt í taumum þannig að hægt sé að hafa stjórn á hestinum meðan stigið er á bak.

Standa skal nálægt hestinum og gæta þess að setja tábergið á mitt ístaðið. Ef fóturinn er settur of djúpt inn í ístaðið er hætta á að hann festist í því ef eitthvað fer úrskeiðis. Þetta skal líka haft í huga þegar riðið er.

Um leið og stigið er á bak getur verið gott að grípa í faxið með fjærhendi.

Síðan spyrnir maðurinn sér frá jörðu þannig að þunginn færist á fótinn í ístaðinu, hallar sér fram og færir lausa fótinn varlega yfir hestinn og sest í hnakkinn um leið og hann setur fótinn í ístaðið.

Þegar báðir fætur eru komnir í ístöðin réttir knapinn úr sér og hagræðir sér í hnakknum.

Stigið af baki

Þegar farið er af baki skal gæta þess að hesturinn standi kyrr og slakur og  losa þá báða fætur úr ístöðunum.

Báðum höndum skal stutt á hnakknefið. Þá getur knapinn hallað sér fram, lyft sér aðeins upp úr hnakknum, fært annan fótinn aftur og yfir lendina og lent jafnfætis á jörðu.