Að leggja á

Þegar búið er að hreinsa úr hófum og kemba hestinum er hægt að leggja hnakkinn á.

Ýmist er hægt að láta halda í hestinn fyrir sig eða hann er bundinn á múl meðan lagt er á.

 

 

Allar lausar ólar og gjarðir eru gerðar upp áður en hnakkurinn er borinn að hestinum til að varna því að slíkt sláist í hann.

Þegar hnakkurinn er lagður á skal gjörðin höfð föst í móttökunum á fjærhliðinni.

Hnakkurinn er lagður aðeins framar á bak hestsins en hann á að sitja og hann síðan dreginn aftur svo hárin liggi rétt undir honum.

Hæfileg staðsetning hnakks er nokkurn veginn fyrir miðju baki hestsins, aftan við herðar og framan við spjaldhrygg.

Gyrða skal laust í fyrstu en herða síðan hæfilega. Ef reiði er notaður skal spenna hann síðast.

Standa skal við hlið hestsins en ekki beint fyrir aftan hann þegar reiðinn er spenntur. Það er mátulega hert ef hægt er að koma þverhönd undir reiðann.