Vaðvinna: Taumferhyrningur

Hérna koma nokkrar æfingar sem er gott að hafa og æfa sem koma sér vel við teyminguna. Koma sér líka mjög vel við taumhringsvinnu án aðhalds.

Útbúnaður er snúrumúll eða taumhringsmúll og 5-6m vaður. Hestinum er vísað í áttina með vaðnum sem er gerður þannig upp í hendi okkar að ekki sé hætta á að hann vefjist og  herðist að henni ef eitthvað óvænt kemur upp á.

Annar endi vaðsins er festur í snúrumúlinn með taumlás en hinn er hafður í hendinni sem er aftar við hestinn og 1/2m af endanum látin standa fram úr greipinni. Með honum er hesturinn hvattur í áttina sem sú hendi er sem framan við hestinn vísar honum í og heldur jafnframt á megninu af vaðnum. Þannig að við notum báðar hendur, aðra til að vísa veginn, hina til að hvetja fram.

Þegar hesturinn tekur stefnuna er gefið það hæfilega út af vaðnum að hann geti gengið beint fram, rétt sig af og fundið gott jafnvægi. Áður en hesturinn tekur sjálfstæða stefnu og færir einbeitinguna frá okkur gefum við leiðandi taumábendingu.

Hestinum er gefin stefna og við göngum aðeins með honum, hægjum og beygjum og svo aftur fram.  Sýnum honum stefnu og hesturinn á að taka hana. Þetta gerir hesta framgenga, dálítið sjálfstæða og í síðasta lagi það að lofa honum að rétta sig svona af á milli gerir það að verkum að hann lagar jafnvægið ef það hefur eitthvað farið úrskeiðis.

 Hæfilegt er að gefa út 3-4m af vaðnum fylgja hestinum þangað til hann gengur beinn og láta slakna á vaðnum. Hægja á eða stöðva þegar við gefum leiðandi taumábendingu og beygjum og endurtökum svo leikinn. Hæfilegt er að hafa beinu línurnar 2 til 3 hestlengdir.

Þegar hesturinn leyfir okkur að láta slakna á taumnum eftir beygjuna hvort sem þær eru fjórar eða sex setjum við hann á brokk. Hæfilegt er að 4-6 umferðir áður en skipt er um hönd.

Þegar við skiptum um hönd höfum við meiri nálægð við hestinn og um leið og tekið er í taum og honum snúið að okkur sendum við endann á taumnum að afturhluta hestsins. Hestur sem hefur lært að víkja með afturhluta um framhluta, verður færari að færa afturhlutann undir þunga sinn þegar hann snýr sér að okkur. Við það verður taumsambandið léttara og hesturinn nær betra jafnvægi.

Við það að vinna svokallaða taumhrings vinnu þannig að hesturinn fái að rétta sig af og endurnýja jafnvægið gefur okkur færi á að slaka á taumsambandinu sem virkar sem umbun fyrir að gefa okkur leiðandi tauminn. Það auðveldar okkur að ná og halda einbeitingu og athygli hestsins og sættast við að vinna án aðhalds.