Teymt á eftir

 

 

Að teyma hest á eftir er tiltölulega auðvelt ef hesturinn er farinn að treysta þér vel og búinn að viðurkenna þig sem leiðtoga af því að hesturinn er jú hópdýr og vill gjarnan vera í hóp með þeim sem að hann treystir og við eigum að reyna að ná því hlutverki.

Ef maðurinn er verðugur leiðtogi bregst hesturinn við af hópeðli sínu og fylgir manninum með hæfilegu millibili á slökum taum.

Þegar lagt er af stað er baki snúið í hestinn og stigið skref fram með slakan tauminn. Taumurinn þarf að vera hæfilega langur (1,5 – 2 m.) svo ekki sé hætta á að hesturinn stígi í hann þegar hann fylgir okkur. Ástæða þess að hesturinn fylgir manninum er einmitt sú að þegar maðurinn snýr bakinu í hann og heldur af stað þá les hesturinn það sem skilaboð um að hann eigi að fylgja leiðtoga sínum. Ef hesturinn fylgir ekki þá skal taka nett í tauminn og árétta ábendinguna.

Þegar hesturinn er farinn að fylgja manninum vel er góð æfing til að efla einbeitingu hestsins og virðingu fyrir manninum að stöðva nokkrum sinnum nokkuð ákveðið og rétta út báðar hendur um leið og stöðvað er og gera þetta bæði á feti og brokki.

Mikilvægt er að hesturinn teymist vel á eftir þar sem hann er miklu oftar teymdur á eftir en við hlið. Það ræðst oft af því að aðstæður eru þröngar og bjóða ekki upp á að maður og hestur séu hlið við hlið.

Víkja aftur og bjóða inn (æfing fyrir að teyma á eftir)

Við staðsetjum okkur fyrir framan hestinn og snúum að honum. Hreyfum okkur svo afturábak, lofum hestinum að fylgja okkur og líkamsstaða okkar er frekar álút og bjóðandi.

Hann skal hafa alla athygli á okkur og við skulum varast að hesturinn líti til hægri eða vinstri þröngvi sér á okkur eða framhjá.

Þegar hann fylgir, heldur hæfilegu millibili og hefur alla einbeitinguna á okkur stöðvum við með því að rétta okkur upp og gerum okkur breiðari.

Endurtökum þetta nokkrum sinnum og þá þannig að við tökum í tauminn jafnframt því sem við færum okkur aftur.

Áskorun, takmark, umbun!

Þegar hesturinn svarar látum við  slakna greinilega á taumnum til umbunar fyrir viðbragðið. Hesturinn tengir átakið sem kemur ofan á hnakkann við að honum er boðið inn og síðan umbunað fyrir viðleitni.

Við þurfum að gæta þess að láta það ekki fara framhjá hestinum ef hann bregst rétt við.

Við lengjum síðan millibilið, hæfilegt er að taumurinn sé orðin 2-3m áður en við förum að láta hestinn ganga afturábak.

Það gerum við með því að gera okkur fyrirferðamikil og ögrandi og látum tauminn víbra svolítið. Um leið og hesturinn tekur eitt skref án þess að setja fótinn í sama farið aftur bjóðum við honum aftur inn og lofum honum að fylgja eina - tvær hestlengdir.

Við endum æfinguna með því að snúa baki í hestinn og teyma hann á eftir okkur.

Þessi æfing gefur okkur óskipta athygli, einbeitingu, styrkir leiðtogann og kennir hestinum að teymast viðstöðulaust á eftir okkur.