Eðli hesta

 

Náttúruleg skilyrði hesta hafa mótað eðli þeirra og skynjun frá aldaöðli. Uppeldi í umhverfi mannfólksins og breytar aðstæður frá náttúrulegu mynstri móta vissulega hegðun þeirra en breyta ekki eðlislægu atferli.

Talsverður hluti hrossa á Íslandi elst upp í stóði, oft án mikillar snertingar við manninn. Hestastóð er samsett úr mörgum minni hópum eða fjölskyldum og þar ríkir ákveðin virðingarröð. Þessi virðingarröð fer meðal annars eftir aldri, styrk og skapgerð hestanna.

Sumir hestar eru einfarar að eðlisfari, jafnvel innan hópsins. Aðrir eru í forystuhlutverki og njóta virðingar. Enn aðrir eru óöruggir um stöðu sína. Þeir bíta, slá og láta ófriðlega en njóta síður virðingar. Efstu hestarnir í virðingarröðinni eru oftar en ekki rólegar, yfirvegaðar skepnur sem koma skilaboðum til hinna með lítt áberandi merkjum sem mark er tekið á.

Í villtu stóði fylgja að jafnaði tvær til þrjár fullorðnar hryssur hverjum stóðhesti en auk þess eru í hópnum nokkur unghross, bæði hestar og hryssur.
Folöld fylgja mæðrum sínum fram að kynþroska en þá sameinast unghestar eldri stóðhestum sem hafa glatað stöðu sinni og misst frá sér hryssurnar til annarra stóðhesta. Við þessar aðstæður fá ungu stóðhestarnir mikilvægt uppeldi og undirbúning fyrir átökin við að koma sér upp sínum eigin hryssuhópi. Mertryppin víkja einnig frá mæðrum sínum um kynþroska og eru teknar inn í annan hóp með nýjum stóðhesti. Ákveðin virðingarröð er í hverjum hópi þar sem það er hryssa sem fer með völdin (Evans).

Líkamstjáningin sem notuð er til að viðhalda virðingarröðinni felst til dæmis í því að sýna ógnandi líkamsstöðu, skarpt augnatillit,  bíta snöggt, lyfta fæti eða leggja eyrun aftur.  Í stóði þar sem virðingarröðin er virt og meðlimir þess kunna samskiptareglurnar eru slík merki nóg til að koma á friði, til að komast hjá frekari átökum.

Hestur samlagast fljótt og finnur sinn sess í nýju samfélagi ef hann hefur alist upp í stóði og þekkir vel ríkjandi samskiptareglur og tjáningarform.  Þegar slíkur hestur kemur í nýjan hóp gengur það oftast friðsamlega fyrir sig.

Samskiptum manns og hests er hægt að líkja við það að maðurinn finnur sér sess í samfélagi hrossa. Affarasælast er þá að hann stefni markvisst á forystuhlutverkið og fái viðurkenningu og traust samfélagsins til að gegna því. Maðurinn getur auðveldað sér öll samskipti við hestana með því að kynna sér hvaða hegðunarmynstur ríkja í hópnum í eðlilegu umhverfi þeirra. Þetta hegðunarmynstur byggir á þremur meginþáttum í eðli þeirra, hópeðli, flóttaeðli og varnareðli.