Æfingar til undirbúnings fyrir lóðrétta ásetu

Þessar æfingar eru flestar æfðar án taumsambands eða á taumhring.

Áseta og ásetuæfingar-fyrri hluti

Áseta og ásetuæfingar-seinni hluti


Ásetuæfing – án ístaða

Æfing til að losa um fætur, knapi hallar sér fram á herðar hestsins.

Æfing til að fá langan fótlegg, knapi hallar sér fram á makka hestsins.

Þessa æfingu er gott að gera til að fá langan fótlegg sem byrjar við mjöðm og lágt sett hné. Til að innanverð lærin liggi flöt að hestinum og til að fá fótinn undir þyngdarpunkt knapans.

Knapinn hallar sér fram á makka hestsins og teygir fæturna aftur, réttir sig svo upp í hnakknum og lætur fæturna og aðallega lærin strjúkast fram í sína upphaflega stöðu.

Hællinn skal nú vera lægsti punktur knapans. Þegar knapinn tekur ístöðin aftur verður hann að gæta þess að breyta ekki fótstöðunni sem nú er fengin. Hnén mega til dæmis ekki færast upp því þá verður of stutt í ístöðunum.


Ásetuæfing – Annar handleggur

Knapinn situr í lóðréttri ásetu með fætur í ístöðum og réttir annan handlegginn beint út frá öxl. Þetta er endurtekið nokkrum sinnum og skipt reglulega um handlegg.

Til að fá óháða handleggi, geta hreyft þá án þess að vera með taum og til að auka jafnvægi.


Ásetuæfing – Báðar hendur

Ásetuæfing með báðar hendur út

Líkt og fyrri æfing nema nú með báðum handleggjum. Horft er beint fram og báðum handleggjum lyft svo þeir standi beint út frá öxlum. Herðablöðin eiga að dragast saman.

Til að tengja saman axlir og hendur annars vegar og axlir, háls og höfuð hins vegar.


Ásetuæfing – Axlir

Höfuð og hendur snúa í þá átt sem riðið er. Hendur eru stilltar sem haldið væri um taum. Þeim er haldið á litlu svæði yfir herðum hestsins með um það bil handarbreidd á milli.

Upphandleggjum er haldið að síðum til að hafa hendurnar stöðugar.

Ef hesturinn er hafður á taumhring er það sá sem stjórnar á gólfi sem beygir hestinn.

Knapinn hreyfir axlir í þá átt sem riðið er þannig að þær fylgi bógum hestsins og hendur og höfuð fylgja að sjálfsögðu með.

Knapinn notar ekki taum við þessar æfingar og hesturinn ræður því að mestu ferðinni, frjáls á afmörkuðu svæði en knapinn snýr sér alltaf í sömu átt og hesturinn eins og að framan er lýst.

Ef knapinn finnur fyrir þrýstingi á innri þjóhnútu þegar hann vindur bolinn þó hann haldi mjöðmum kyrrum hefur æfingin skilað árangri.


Ásetuæfing - Bolvindur

Ásetuæfing-bolvindur.

Ásetuæfing-bolvindur. Góður undirbúningur fyrir beygjuásetu.

Þessi æfing auðveldar knapanum að láta axlir hreyfa handleggi og höfuð í þá átt sem riðið er og er góður undirbúningur fyrir beygjuásetu.

Knapinn heldur báðum handleggjum beint frá öxlum og snýr svo bolnum þannig að hendur og höfuð fylgja hreyfingunni. Nú snúa hendur og höfuð langsum yfir hestinum. Varast ber að láta aftari handlegginn falla.

Næst er bolnum snúið beint fram með öxlum og höfði og handleggir eru enn útréttir. Nú vísa hendur og höfuð þvert á hestinn.

Því næst er bol, öxlum og höfði snúið út í hina áttina eins og áður var lýst. Þetta er endurtekið þangað til knapa er orðið eðlilegt að láta axlir hreyfa handleggi og höfuð.

 


Ásetuæfing – Heildarhreyfing samstillt

Hér er síðasta æfing endurtekin og bætt er við beygjuásetu þar sem ytri fótur er aftan við gjörð en innri fótur við gjörð sem beygjufótur.

Höfuð knapans snýr í þá átt sem riðið er, axlir eru stilltar eftir bógum hestsins og mjaðmir eftir mjöðmum hestsins. Hendur og fætur eru stillt eins og þegar beygt er. Rétt hægri/vinstri áseta eða snúningsáseta.

Heildar áseta og samverkandi ábendingar verða til þess að við gefum hestinum sömu skilaboð að framan og aftan og hesturinn á þar með auðveldara með að bregðast rétt og vel við.