Að nálgast hest og mýla

Þegar maðurinn nálgast hest þarf að gæta að mörgu. Koma skal þannig að hestinum að hann sjái manninn.  Hestinum getur brugðið ef komið er aftan að honum því þá sér hann manninn síður.

Maðurinn ætti að láta fara lítið fyrir sér, hafa allar hreyfingar hægar og öruggar og tala til hestsins í róandi tón. Gæta skal þess að vera ekki ógnandi og fylgjast vel með þeim merkjum sem hesturinn sendir frá sér.  Þannig er hægt að sjá fyrir hvernig hann bregst við og staðsetja sig rétt.  Þetta munum við geta gert þegar við höfum lært að skilja samskiptaleiðir hestsins og þau merki sem hann gefur frá sér.

Gott er að nálgast hann frá hlið og láta fyrstu snertingu vera á bóg og háls. Leggja svo nærhöndina um háls hestsins en strjúka honum með fjærhendi um háls og bóga. Færa höndina svo gætilega fram fyrir nefbeinið á meðan nærhöndin er flutt fram hálsinn og fingur lagðir á kjálka. Þannig getur hann síður snúið höfðinu frá manninum á meðan múlnum er smeygt um höfuðið.

Kverkólin skal vera óspennt en hnakkaólina skal hafa spennta og frekar langa. Þá er hægt að létta nærhendinni af kjálkanum og nota hana til að taka um hnakkastykkið á múlnum, færa það yfir höfuð og eyru. Um leið er fjærhöndin notuð til að beina nefi hestsins inn í múlinn. Að lokum skal festa hæfilega og ganga frá öllum ólum.