Útreiðar

Óvönum knöpum er ráðlagt að ríða út með öðrum vanari. Þá skulu óvanir ætíð vanda val á hesti. Hestar eru misjafnir í skapi og viðbrögðum. Ef knapinn þekkir hestinn ekki vel eða ef hesturinn er staðinn (honum hefur ekki verið riðið lengi) skal fara enn gætilegar en ella.

Athuga skal hvort gjörð er hæfilega spennt áður en farið er á bak. Hesturinn gæti hafa þanið sig á meðan gyrt var og þá er hætta á að of laust sé gyrt þegar stíga skal á bak.

Á meðan knapi er óvanur skal varast að fara í of langa reiðtúra þannig að knapi eða hestur þreytist um of. Hæfilegt er að byrja á 20-30 mínútna reiðtúrum sem síðan má lengja smám saman. Ekki er ráðlegt að hafa reiðtúrana öllu lengri en eina klukkustund  á vel þjálfuðum hesti.

Mikilvægt er að vera vakandi yfir öllu umhverfi í reiðtúrnum og viðbúinn því allir hestar geta hrokkið við og stundum hastarlega. Það gildir líka um þá hesta sem knapinn þekkir vel. Hestar sjá hluti sem hreyfast betur en við og upplifa umhverfið á annan hátt en mannfólkið.

Hestur sem riðið er einum hefur oft minna sjálfstraust heldur en þegar hann er með öðrum í för. Hafa skal í huga að jafnvel flögrandi pappírssnifsi eða fuglar geta fælt hestinn. Hestur getur hræðst hluti í umhverfinu sem knapinn tekur alls ekki eftir.