Lóðrétt áseta – Virk
Virka, lóðrétta ásetu notum við þegar við stöðvum eða söfnum hesti.
Hún á að vera þannig að knapinn sækir hestinn fram með mjöðmum og notar til þess neðsta hlutann af bakinu. Það virkar hvetjandi fram og síðan á að halda við með öxlum. Hendurnar virka frekar eins og tenging þar á milli.
Rétt er að leggja áherslu á samspil handa og axla með því að láta upphandleggi liggja að síðum og forðast að toga í taumana með höndunum.
Við stöðvunaræfingar og samverkandi ábendingar eru það mjaðmir knapans sem færast að höndum en axlirnar halda við og hamla eða stöðva hestinn. Þannig tengjast hendur við axlir, bak og mjaðmir og sætið við afturhluta hestsins. Með slíkri líkamsbeitingu hefur knapinn áhrif á allan hestinn, ekki bara munninn. Með öðrum orðum þá er hesturinn hvattur fram með ásetunni og að taumhaldinu til að hægja eða stöðva. Á þann hátt er það hesturinn sem kemur fram að hendinni en ekki höndin sem togar í hestinn.
Þetta er hluti af samverkandi æfingum og best er að venja sig á þær strax í upphafi. Líkamsbeitingu knapans má líkja við að róla eins og flestir þekkja úr barnæsku.