Teyming við hlið
Það er mikilvægt í allri umgengni við hestinn að hann teymist vel, bæði við hlið og fyrir aftan manninn og að hann hlýði ábendingum um að auka hraðann, hægja á og stöðva.
Það að teyma hest kennir knapanum einna best hvernig hestur bregst við hegðun mannsins, hljóði og snertingu.
Hestur bregst við af flóttaeðli sínu þegar hann er hvattur til að ganga fram við hlið mannsins, hann víkur frá því sem er óþægilegt og ögrandi.
Þegar hestur er teymdur á eftir manni bregst hann við af hópeðli sínu með því að kjósa að fylgja manninum sem leiðtoga sínum.
Þegar teyming er æfð skal hesturinn teymdur á snúrumúl með einföldum stuttum taum. Nota skal reiðpísk til að styrkja ábendingar.
Þegar hestur á að teymast við hlið skal maðurinn staðsetja sig við bóg hestsins og halda í tauminn með hendinni sem er nær hestinum um hálfan metra frá múlnum sem hann er teymdur á. Hendinni skal haldið eins kyrri og hægt er með léttan slaka á taumnum. Halda skal á písknum í fjærhendi og láta hann standa eins og tónsprota fram úr greipinni, færa hann upp og aftur í átt að lend þegar hvatt er fram en upp og fram fyrir höfuð hestsins þegar hægt er á eða stöðvað.
Hestar heyra mjög vel og geta jafnvel numið hljóð úr tveimur áttum samtímis. Það er því auðvelt að ná athygli þeirra með hljóðum sem örva þá eða róa. Hljóðmerki til að hvetja eða veita athygli að öðrum ábendingum geta til dæmis verið að smella í góm. Til að hægja á hestinum er oft sagt „hooo“ í róandi tóntegund.
Forgangsröð við teymingu er
- Staðsetning og líkamstjáning.
- Hljóð hvetjandi eða róandi eftir því sem við á.
- Og snerting með písk eða taum.
Þegar ábendingar eru teknar af skal gera það í öfugri röð. Fyrst er hvatning með písk tekin af, þá hljóðhvatningin þangað til hesturinn gengur aðeins fram vegna líkamstjáningar og staðsetningar mannsins.
Þegar hægja skal á eða stöðva hestinn skal maðurinn færa pískhöndina fram fyrir hestinn og lyfta henni, færa næröxlina aðeins aftar og frá hestinum og gefa frá sér róandi hljóð. Ef hesturinn hægir eða stöðvar ekki nógu auðveldlega er pískurinn látinn koma framan á brjóst hans og dugi það ekki þá er pískurinn settur framan á nefbeinið. Ávallt skal hafa hæfilega fjarlægð frá hestinum.
Æfa skal teymngu frá báðum hliðum á feti og síðan brokki. Þegar skipt er um hönd má gera það á tvo vegu.
- Annars vegar eftir að hesturinn hefur verið stöðvaður getur maðurinn fært sig að hinni hlið hestsins, snúið öfugt við hann og snert hann með písknum á síðu eða afturfót og hvatt afturhluta hans í hálfhring um framhlutann. Þá snýr maðurinn sér við og er þá kominn upp á hina hliðina.
- Hins vegar má snúa hestinum við með því að bjóða hestinum inn (að miðju vallarins). Þá færir maðurinn sig frá hestinum og þegar hann snýr að manninum snýr maðurinn sér einnig og kemur hvetjandi að hestinum frá hinni hliðinni sem nú snýr í gagnstæða átt. Þá lætur maðurinn pískinn snerta bóginn sem var á ytri hlið en verður nú á innri hlið og hvetur framhluta hestsins um afturhluta hans. Á þennan hátt má einnig snúa við án þess að hesturinn sé stöðvaður.
Þegar talað er um að vera upp á vinstri eða hægri hönd er miðað við þá hönd sem snýr inn að miðju vallar.