Efni þessa áfanga

SólseturSkyggnst er í eðli hrossa og hvað það er sem stjórnar hegðun og atferli þeirra. Kennd eru fumlaus og markviss handtök við að umgangast hesta, nálgast þá og umgangast.  Beisla, leggja á og taka upp fætur þannig að hesturinn verði ekki fyrir óþægindum vegna óöryggis og vankunnáttu.

Fyrir byrjendur getur ótti verið vandamál sem hægt er að yfirstíga með því að læra rétt og örugg handtök. Góð vinnubrögð draga úr hættu á slysum og nauðsynlegt er að temja sér þau strax í upphafi hestamennskunnar.

Kennt er að teyma hest sér við hlið og á eftir sér. Að læra að teyma hest sér við hlið er mjög góð aðferð fyrir knapa að kynnast eðlislægum viðbrögðum hrossa og hvernig knapinn á að bregðast við þeim.

Knapinn lærir því ekki bara að teyma hest heldur einnig hvernig á að beita líkamstjáningu og ábendingum til að stjórna hesti.

Leitast er við að sýna fram á að sjálfgefin viðbrögð hrossa eru ekki endilega þau viðbrögð sem eru rökrétt fyrir manninn.

Hestur bregst við því sem hann sér, t.d. hvernig við tjáum okkur með líkamanum og hvar við staðsetjum okkur. Hann bregst við róandi og hvetjandi hljóðum og einnig utanaðkomandi hljóðum sem geta truflað einbeitingu hans. Enn fremur bregst hesturinn við snertingu, t.d. písk sem kemur við hann og þá skiptir máli hvar á líkama hans snertingin kemur. Hann færir sig frá ef snertingin er óþægileg en róast ef snertingin er þægileg, t.d. stroka.

Í þessum áfanga námsins er einnig kennd lóðrétt og hálflétt áseta og æfingar sem bæta ásetuna og auka jafnvægi knapa.

Rétt áseta og gott vald á líkama eru undirstaða árangursríkrar reiðmennsku.