Lóðrétt áseta – þegar hesturinn er beygður (hægri/vinstri áseta)
Í lóðréttri ásetu eru axlirnar einna mikilvægastar. Þær ráða miklu um hreyfingu handa; aftur, fram og til hliðar. Ef beinar axlirnar eru hreyfðar til hægri eða vinstri setja þær vinding eða snúning á allan bolinn þegar beygt er.
Upphandleggir liggja að síðum og bakið er beint. Spjaldhryggur tengir bakið við mjaðmir og þjóhnútur.
Ytri fótur færist aftur og það kemur örlítill vindingur á mjaðmir og meiri þrýstingur á innri þjóhnútu sem undirstrikar (styrkir) beygjuna á hryggsúlu hestsins.
Knapinn lætur axlir hreyfa hendur og höfuð til hægri/vinstri til að fá fram hægri/vinstri ásetu.
Mjaðmir knapans eru stilltar eins og mjaðmir hestsins og axlir knapans eins og axlir hestsins.
Frávik frá þessum stillingum eykur hættu á að knapinn gefi hestinum misvísandi ábendingar með höndum eða sæti. Þegar ásetu er beitt á þennan hátt í reið örvar það beygju hestsins og léttir taumsamband.