Lóðrétt áseta

Rétt lóðrétt áseta.

Rétt lóðrétt áseta.

Í lóðréttri ásetu situr knapinn stinnur, mjúkur og beinn í baki og jafnan þar sem hnakkurinn er dýpstur. Mjaðmir og setbein eru grunnur ásetunnar. Sitja skal jafnt á óspenntum þjóhnútum, hafa langan fót og lágt sett hné. Læri liggi flöt að hestinum og fótleggir vísa aftur þannig að fótur og ístað séu sem næst því að vera undir þunga knapans. Fótur vísar aðeins út og sem næst því sem gengið er. Hællinn skal vera lægsti punktur knapans. Höfuð og axlir skulu ávallt vísa í þá átt sem riðið er. Réttur axlaburður fæst með því að draga herðablöðin saman og slaka þeim svo aðeins.

Bakið skal vera beint en ekki fatt. Þjóhnútur mega ekki vera aftan við lóðrétta línu sem dregin er frá öxlum og niður í sæti. Lóðrétt lína skal liggja frá öxl um mjaðmir og niður í hæl. Hendur skulu hafðar á litlu hringlaga svæði yfir herðum hestsins og vera stilltar svipað og haldið sé á logandi kerti. Þá skal bein lína liggja frá olnboga fram í hendi og niður í munn hestsins.