Áseta og ásetuæfingar
- Áseta hefur áhrif á það hvernig hestur beitir bakinu. Hvort hann lyftir því og gerir það sterkt, hvort hann lætur það falla svo það verði veikt eða hvort hann gerir það stíft.
- Góð og rétt áseta getur hjálpað hesti að beygja sig.
- Ásetan hjálpar hestinum að finna jafnvægi og halda því.
- Hún getur haft hvetjandi eða róandi áhrif á hann. Hún styrkir hvetjandi og hamlandi ábendingar og tengir þær sem eru notaðar samtímis.
Ásetan, ásamt ábendingum, er viðkoma knapans við hestinn og ætti að vera eins áhrifarík og bærileg fyrir hestinn og mögulegt er.
Ásetunni þarf að beita af tillitsemi og sanngirni. Það er því mikilvægt strax í upphafi að læra og venja sig á rétta og viðeigandi ásetu.
Með góðri ásetu gefst hestinum færi á að hreyfa sig af lipurð og fimi, af styrk og í jafnvægi. Hafa skal hugfast að hesturinn er ekki fæddur í þennan heim til að bera mann á bakinu. Góð áseta fæst sé knapinn sjálfur í góðu jafnvægi og í jafnvægi við hestinn. Þá er hægt að ímynda sér að væri hestinum kippt undan knapanum ætti hann að lenda á fótunum í jafnvægi á jörðinni.