Hesthús og innréttingar
8. gr.
Innréttingar og annar útbúnaður hesthúsa skulu vera þannig að ekki skapist hætta á að
hross verði fyrir meiðslum eða heilsutjóni. Frágangur dyra og ganga skal vera þannig að
fljótlegt sé að rýma þau í neyðartilvikum. Stíuveggir skulu vera þannig gerðir að ekki skapist
hætta á að fætur eða höfuð festist. Bil undir milligerði í stíum skal ekki vera meira en 4 cm.
Innréttingar skulu vera þannig gerðar að hross geti séð önnur hross á húsi. Í byggingar og
innréttingar skal nota efni sem auðvelt er að þrífa og sótthreinsa. Óheimilt er að nota hvers
konar hættuleg og heilsuspillandi efni.
Gólf skulu vera með stömu yfirborði sem auðvelt er að þrífa. Steypt gólf í básum skulu
klædd gúmmímottum eða öðru mjúku efni. Þar sem ekki er hreinsað daglega skal borið undir
hrossin til að koma í veg fyrir bleytu og hálku. Ganga skal frá niðurföllum þannig að þau
valdi ekki slysum eða óþægindum.
Stíur skulu vera svo stórar að hestur/hestar geti auðveldlega legið og snúið sér innan
hennar.
Básar skulu einungis notaðir tímabundið fyrir hvert hross. Básar og stíur skulu uppfylla
kröfur um lágmarksstærðir sem fram koma í a-lið viðauka I við reglugerð þessa.