VIÐAUKI I – C. Holdstigun.
Holdastig | Stutt lýsing | Lengri lýsing |
---|---|---|
1 | Grindhoraður | Öll rifbein sjást, skinnið er strengt á beinin og hvergi fitu að finna. Mikið gengið á vöðva, makki fallinn, herðar og hryggsúla standa mikið upp úr, lend holdlaus. Hesturinn hengir haus og sýnir lítil viðbrögð við ytra áreiti. Heilsutjón er varanlegt og rétt er að aflífa hross í þessu ásigkomulagi. |
1.5 | Horaður | Flest rifbein sjást. Fastur átöku. Verulega tekið úr hálsi, baki og lend. Hárafar er gróft, strítt og matt. Mikil hætta að hrossið nái sér ekki að fullu. |
2 | Verulega aflagður | Flest rifbein finnast greinilega, og þau öftustu sjást. Örlítil fita undir húð yfir fremri rifbeinum. Vöðvar teknir að rýrna, tekið úr makka og lend, hálsinn þunnur. Hryggsúla og herðar sjást vel. Hárafar matt og hrossið vansælt. |
2.5 | Fullþunnur | Yfir tveim-fjórum öftustu rifbeinum er mjög lítil fita, sem gjarnan er föst átöku, nema hrossið sé í bata. Vöðvar í lend, baki og hálsi ekki nægjanlega fylltir. Hrossið er í tæpum reiðhestsholdum og þarf að bæta á sig. |
3 | Reiðhestshold | Tvö-fjögur öftustu rifbein finnast greinilega við þreifingu en sjást ekki. Yfir þeim er þunnt og laust fitulag (ca 1 cm). Lendin er ávöl og hæfilega fyllt. Bakið fyllt og jafnt hryggsúlu. Hárafar slétt og jafnt |
3.5 | Ríflegur | Yfir tveim-fjórum öftustu rifbeinum er gott og laust fitulag. Öftustu rifbein má samt greina. Lend, bak og háls eru fallega vöðvafyllt og fitusöfnun má oft merkja t.d. fyrir aftan herðar. Hrossið er í ríflegum reiðhestsholdum og hefur nokkurn forða til að taka af. |
4 | Feitur | Þykk fita á síðu, rifbein verða ekki greind. Bak mjög fyllt og hryggsúlan oft örlítið sokkin í hold. |
4.5 | Mjög feitur | Greinileg fitusöfnun í hálsi, aftan við herðar og á lend |
5 | Afmyndaður | Rifbein finnast alls ekki, fitan mjög þétt átöku. Laut eftir baki og mikil dæld í lend. Keppir og hnyklar af fitu, á síðu, hálsi, lend. |
Notkun á skalanum.
Flest hross fá holdastig á bilinu 2-4. Sé hrossið með holdastig 2 er það í mjög slæmu
fóðurástandi. Þannig hross þarf að fóðra sérstaklega, og getur ekki gengið úti að vetrarlagi
nema hafa mjög gott skjól í eða við hús. Holdastig 1 - 2 telst til illrar meðferðar og varða við
dýraverndarlög.
Reiðhestshold eru eins og nafnið bendir til hæfileg hold á hesti í brúkun og einnig telst
það holdafar viðunandi fyrir útigönguhross að vori. Hins vegar eru reiðhestshold knöpp að
hausti eigi hrossið að ganga úti yfir veturinn. Hross sem eru að fara á útigang þurfa síðla
hausts að hafa gott fitulag undir húð (holdastig 3,5-4). Það virðist auka kuldaþol þeirra og
gerir þau betur í stakk búin að standa af sér illviðri. Æskilegt er að hross séu í ríflegum
reiðhestsholdum þegar lagt er upp í ferðalag.
Hafi hrossið holdastig 4 er það orðið vel feitt og því vel undir útigang búið. Ástæðulaust
er að hross séu feitari en svo. Hross sem eru með 5 í holdastig hafa haft óhóflegan aðgang að
fóðri og telst það ekki góð meðferð enda getur það komið niður á heilsufari þeirra.*
*Heimild: Guðrún Stefánsdóttir og Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma.