Gæðingaskeið
Gæðingaskeið sem keppnisgrein var hugsuð til að bæta öryggi skeiðsins, sem var mjög ábótavant hjá hinum almenna hestamanni á þeim tíma.
Þar sem skeið er afreksgangtegund sem er riðin á miklum hraða, koma upp ýmis vandamál.
- Þau geta verið andleg ef skeiðsprettirnir verða of langir.
- Ósanngjarn hraði miðað við þjálfunarstig eða ófyrirsjáanlegt hvar sprettirnir enda.
- Vandamálin geta líka verið líkamleg, þegar hesturinn grípur með afturfæti á hornstæðan framfót þegar skrefið er orðið svo langt að aftur fótur fer framfyrir framfót.
Um svipað leiti og gæðingaskeiðið var í mótun, sáum við fyrstu hófhlífarnar, við fórum að læra járningar en ekki bara járna hestinn og urðum meðvitaðri um að röng hófstaða gat valdið ágripum.
Það var aðallega tvennt sem við vildum bæta með tilkomu gæðingaskeiðsins.
Annarsvegar sáust of margir sískeiðarar sem sóttu í að skeiða þó þeir ættu að vera á tölti því þeim voru ekki lagðar línurnar hvar töltið endaði og skeiðhlaupið tæki við(svonefnd skeiðspenna), og fóru svo í sprettinn þegar þeim var leift það í slæmu jafnvægi eða með of mikinn þunga á framhluta.
Þetta skapaðist oft út af því að þeim var rennt í skeiðið af tölti eða í versta falli af skeiðlullinu þegar þeir höfðu tapað töltinu.
Það er ekki þar með sagt að ekki megi renna hesti á skeið fram af tölti, það er bara ekki sama hvernig það er gert. Hann þarf að vera í góðu jafnvægi og alls ekki með of mikinn þunga á framhluta því það gerir hestinum erfitt fyrir og jafnvægið er afar viðkvæmt á flugaskeiði. Hann þarf að bera og spyrna með afturfótum í mjög jöfnum hlutföllum.
Hitt var svo að sprettirnir voru oft ófyrirsjáanlega langir og hestar vildu missa einbeitingu eða hreinlega guggna og stökkva upp af skeiðinu.
Hugmyndin var að útfæra keppnisform sem setti skilyrði að hesturinn tæki stökk áður enn hann yrði tekinn til skeiðsins, látinn skeiða stutt og snjallt og síðan hægður niður á tölt án þess að fipast og eða stökkva upp af skeiðinu.
Fyrsta hugmynd að útfærslu gæðingaskeiðs var á hringvelli, líkt og skeiðið er riðið í fimmgangi, en niðurhægingin af skeiðinu þótti ekki og er ekki sanngjörn eða uppbyggileg fyrir skeiðið.
Annað var að erfitt var að velja af hvoru stökkinu (því hægra eða því vinstra) hesturinn var tekinn til skeiðsins því undirbúningur fyrir niðurtöku fór fram í beygju.
Sú útfærsla sem sæst var á hefur lítið breyst, fór fram á beinni 200m braut þar sem hestinum var á fyrstu 50m hleypt upp á hægra eða vinstra stökk.
Til að auðvelda það hvort hesturinn tæki hægra stökk eða vinstra stökk var höfð trekt 25m löng þannig að ef hægara þótti að taka hestinn til skeiðsins af vinstra stökki var komið vinstra megin að trektinni, en ef það þótti hægara af hægra stökki var komið að henni hægra megin.
Það var síðan dæmt hve snjallt og fumlaust hann var tekin niður á 25 metrum eftir að hann kom út úr trektinni, þá var hann látinn skeiða 100 metra.
Gæði, fegurð og jafnvægi skeiðsins voru dæmd á tveimur 50m aðskildum köflum, því hestar skeiða oft öðruvísi í upphafi skeiðs en þegar líður á sprettinn, síðan var tekinn tími hve hratt hann hljóp allt skeiðið, eftir það var hesturinn hægður niður af skeiðinu á tölt eða jafnvel hægara skeið.
Aðalatriðið var að hann hægði sig án þess að fipast á 50metrum. Það var síðan dæmt hversu vel og hversu mikið var hægt að hægja hestinn án þess að hann fipaðist, og þá var tekið tillit til þess á hversu hröðu skeiði hann kom í niðurhæginguna.
Helstu breytingar sem hafa orðið á Gæðingaskeiði eru þær að meiri kröfur eru gerðar á því hversu mikið hesturinn hægir sig og er nú farið fram á að hægt sé niður á fet jafnvel stöðvað eftir skeiðið, hvað svo sem það á nú skylt við hina upphaflegu hugmynd um að bæta skeiðið, en til að réttlæta þetta var sú vegalengd sem ætluð er til að hægja hestinn niður lengd í 75 m.