Örfá orð um skeiðlag og þjálfun

Við göngum út frá því að hesturinn hafi hæfileika og byggingu til að geta skeiðað, sé sterkur og í góðri þjálfun, heill og frír við ágrip.

Góður og vel undirbúinn skeiðhestur er slakur en viljugur og í andlegu jafnvægi, hann þarf að vera á takti og finna gott líkamlegt jafnvægi á hinum þremur sem við köllum grunngangtegundum, feti, brokki og stökki, á þeim hraða sem hann á auðvelt með.

Hann þarf að svara vel og skilja taumhald og taumábendingar, vera jafn á báða tauma og kunna að láta vísa sér niður og fram.

Vel taminn skeiðhestur þarf að vera samspora, svara hliðarhvatningu, ganga vel fram við framhvatningu ekki síst að hann láti örvast og aukist við hljóðhvatningu.

Best er að undirbúa hestinn á tölti, báðar gangtegundir eru með hliðstæða fótaröðun, við notum svipaðar ábendingar við að leiðrétta vandamál ef þau koma upp og við finnum nokkuð á töltinu hvernig ganglagið, jafnvægið og gangrýmið á skeiðinu mun verða.

Skeiðþjálfun - Dæmi 1

Ef hesturinn er frekar hár að aftan, fer fljótlega í skeiðtölt ef hraðinn er aukinn, er hætt við að hann verði með of mikinn þunga á framhluta þegar hann er kominn á skeið sprettinn.

Þetta getum við leiðrétt nokkuð með réttri töltþjálfun, æft hestinn í að færa þunga af framhluta á afturhluta, með því að láta hann stytta afturfótaskrefið minnka spyrnukraft en auka burðarkraft.
Reisa hann meira en þó án þess að tapa hnakkabeygju og hesturinn haldist léttur og felli höfuðið.

Þetta gerum við með því að sitja þétt og nota meira bak okkar og mjaðmir til að þrýsta þjóhnútum (sætinu) niður og fram við hvatningu. Ríða safnað fet, hægt tölt og aukum svo hraðann á töltinu smátt og smátt.
Þegar hann byrjar að spyrna meira en hann ber með afturfótunum, töltið verður skeiðlagið og óþægilegt, hægjum við á.

Þegar við hleypum þessum hesti svo til skeiðs lofum við honum ekki að stökkva meira eða lengur en svo að hann stökkvi upp og fram, tökum hann niður (sem kallað er þegar hestur er lagður á skeið af stökki) áður en hann fer að teygja sig mikið niður og fram.

Við tökum hest niður með taumnum sem er þeim megin sem hann stekkur upp á, ef hann stekkur hægra stökk tökum við hann niður aðeins meira með hægri taum, en höldum við svo hesturinn haldist beinn með hinum. Sitjum frekar þétt og aðeins meira vinstra megin þetta gerum við þangað til hesturinn er farinn að skeiða jafnt, þá jöfnum við taumhaldið og ásetuna, en sitjum enn nokkuð þétt og höldum hestinum frekar háum.

Gott er að snerta svona hest aðeins með písk aftan á lærið til að hann gangi vel undir sig með afturfótum. Við höldum hestinum frekar háum þangað til við erum nokkuð viss um að hann ætlar að halda takti og jafnvægi, en setji sig ekki of mikið á framhlutann.

Þá léttum við á ásetunni gefum taumana aðeins fram án þess að missa taumsambandið og lofum hestinum að lækka að framan og teygja sig meira fram.

Þegar við hægjum þennan hest niður setjumst við aftur þétt og tökum upp fyrra taumhald eða frekar hátt, til að varna því að hesturinn missi jafnvægið sem hann hafði, færi of mikinn þunga fram og stökkvi upp við niðurhæginguna.

Best er að velja skeiðbrautina sem æft er á þannig að hún sé aðeins hærri þar sem skeiðið endar.

Skeiðþjálfun - Dæmi 2

Ef hesturinn er hins vegar hár að framan og töltið er þannig að þegar við aukum hraðan verður það frekar brokktölt eða hann hoppar upp á annan fótinn, bakið lækkar og verður of mjúkt þá gæti komið upp annað vandamál á skeiðinu.

Skeiðið færi út í of mikinn fjórtakt, hesturinn næði því ekki að svífa, af því hann lyftir ekki bakinu og hefur þar af leiðandi ekki nægan styrk til að skeiða. Eða hann losar of mikið um annan bóginn og skeiðið lendir í of miklu hoppi upp á fótinn og endar í hreinu stökki.

Við undirbúum þennan hest með því að ríða honum Í frekar lágum höfuðburði eða með höfuðið aðeins meira en í lóðréttri stöðu, hringuðum makka í svokölluðum vinnuhöfuðburði á tölti eða jafnvel brokki.
Við sitjum frekar létt á honum og fáum hann til að lyfta bakinu.
Þegar við hleypum síðan þessum hesti til skeiðs látum við hann stökkva lengur og hraðar eða þangað til hann fer að lækka að framan og teygja sig.
Þá tökum við hann niður á svipaðan hátt en reynum að leggja hann á skeiðið með sem léttustu taumhaldi og forðumst að reisa hann.
Sama ber að hafa í huga á skeiðinu, létt jafnt taumsamband, sitja frekar létt í hnakknum og hvetja með hljóði og eða písk og þá fyrir framan hnakk eða á bóg.

Skeið er stemmings gangtegund sem er riðin í frekar stuttum sprettum hámark 200m til 300m, og þá æft á beinni braut sem hesturinn þekkir og sækir í að fara.
Við reynum að hafa það mikinn vilja fyrir sprettinn að við þurfum ekki að hvetja mikið á sprettinum, því annars er hætt að við verðum ofvirk meðan á hlaupinu stendur og fipum hann, eða hann fyllist vonleysi og hættir að leggja sig fram.

Við veljum skeiðfærið til æfinga þannig að það sé skeiðað í áttina heim, nema fyrir hesta sem eru ofurkappsamir, þá skeiðum við frekar í átt frá húsi.

Gæðingaskeiðið hefur náð sínum tilgangi, við sjáum fleiri heilsteypta skeiðspretti þar sem hestinum er hleypt að skeiðinu og hann síðan lagður á skeið og endar síðan skeiðið á tölti slakar sér jafnvel niður á brokk síðan á fet og leitar jafnvel eftir því að teygja sig niður og fram og frísa sem sýnir að hann er í góðu andlegu jafnvægi eftir sprettinn.

Oft kemur upp sú spurning af hverju að hleypa hestinum á stökk fyrir skeiðið.
Ástæðan er sú að við getum ráðið því að miklu leiti í hvaða jafnvægi hesturinn byrjar skeiðið.
Viljum við að hann sé frekar hár og stökkvi þá meira upp og fram þegar hann er tekinn niður, eða viljum við að hann sé frekar teygður og langur fyrir skeiðið.

Einnig getum við ráðið því á hvaða hraða hesturinn tekur skeiðið, hvort við viljum spara honum þann kraft sem fer í það að auka hraðann ef hann gerir það á skeiðinu, þó er rétt að hafa hraðann ekki meiri á stökkinu en hann verður á skeiði, heldur lofa honum að auka hraðann eftir niðurtöku.

Helsta ástæðan fyrir því að leggja hest á skeið af stökki, fyrir utan að halda töltinu og skeiðinu aðskildu er sú að við náum upp stemningu fyrir skeiðið og það þykir djarft og
snjallt.