Afturfótasnúningur
Sjá mynd: Ytri framfótur stígur fram fyrir og inn fyrir innri framfót þegar gerður er afturfóta snúningur.
Þegar hesturinn er beygður í þá átt sem riðin er og snúið við með því að hann færir framhlutann um afturhlutann.
Hann stígur með ytri fram- og afturfót, fram og inn fyrir innri fætur. Færir meiri þunga á afturhluta miðað við framfótasnúning þegar innri fætur og meira innri afturfótur færast fram og inn fyrir ytri fætur. Í framfótasnúning er þunginn meiri á framhluta og hesturinn stilltur úr þeirri átt sem riðið er og er nefnd leysandi æfing en aftur á móti er afturfótasnúningur safnandi æfing.
- Fyrir afturfótasnúning virkjum við hliðarhvetjandi fóthvatningu.
- Afturfótasnúning má ríða bæði á ferð, eins og þegar riðinn er baugur til baka en ytri afturfótur tekur lengri skref fram og yfir innri afturfót sem tekur styttri skref, beygir meira í liðum og tekur meiri þyngd.
- Hann má einnig er ríða nær því í kyrrstöðu þegar hesturinn færir ytri afturfótinn fram og um innri fótinn sem hann setur niður nær því á sama stað og hann tók hann upp en hesturinn skal þó alltaf vera í framhreyfingu og hugsa fram.
- Afturfótasnúningur er notaður til að snúa við eða skipta um hönd og er þá riðinn í hálfhring eða heila hringi til að auka leikni.
Undirbúningur við hendi
Góður undirbúningur fyrir afturfótasnúning úr kyrrstöðu er að kenna hestinum það við hendi með því að stilla höfuð að okkur bjóða honum síðan að stíga skrefið að okkur,færa síðan pískinn að ytri bóg.
Snerta hann þar og láta hestinn víkja með framhluta um afturhluta líkt og við gerðum þegar við snérum við í kaflanum um teymingu við hlið.
Önnur aðferð við hendi sem á betur við hest sem þarf að árétta virðingu er að stilla höfuð og háls frá okkur, snerta hestinn á bóginn sem er nær okkur og láta hann víkja með framhluta um afturhluta frá okkur.
Afturfótasnúningur á ferð.
Árangur þessa undirbúnings er sá að hesturinn kann að bregðast við snertingu með písknum á bóg og pískurinn getur síðan undirstrikað taum ábendingar þegar við gerum afturfótasnúninginn úr hnakknum.
Góður undirbúningur fyrir afturfótasnúning á ferð er ef hesturinn hefur lært að minnka baug og eða ganga lokaðan sniðgang.
Hesturinn á hægar með að svara þeim ábendingum sem við notum þegar stefnan er skýr og nægjanleg framganga og ábendingarnar sem við notum við lokaðan sniðgang eru mjög svipaðar þeim sem við gefum við afturfótasnúning.
En þær eru:
- Innri taumur heldur beygjunni og varnar því að hann færi ekki of mikinn þunga á innri bóg en er samt léttur.
- Hesturinn skal beygja sig um þinn innri fót sem ásamt því að halda beygju heldur hann innri taum léttum.
- Ytri taumur afmarkar beygjuna á hálsinum og báðir taumar færa framhluta hestsins í þá átt sem riðin er.
- Ytri fótur okkar sem liggur nú aftar flytur afturhluta hans og þá ytri afturfótinn fram og inn fyrir þann innri.
Ráðlegt er meðan við og hesturinn erum að æfast, að hafa snúninginn frekar stærri í byrjun og minnka hann síðan.
Ef hesturinn leggur of mikinn þunga á innri bóg og hreyfingin stöðvast er ráðlegt að ríða honum hestlengd fram en sjá til að beygjan haldist, og reyna svo aftur við snúninginn.
Til að hesturinn styðji sig síður á ytri tauminn er rétt að hafa pískinn í ytri hendi og leggja hann að bóg.
Þegar opinn sniðgangur eykur burð innri afturfótar við að beygja í liðum, færast innundir hestinn og nær þyngdarpunkti, þá eykst burður ytri afturfótar við að færast á sama hátt þegar riðinn er lokaður sniðgangur og afturfótasnúningur.
Það er ástæðan fyrir því ef fara saman sterk yfirlína, hæfileg reising og góður höfuðburður að við köllum þessar æfingar safnandi.
Önnur ástæða fyrir því að við ríðum afturfótasnúning er sú að við þjálfumst í að nota samverkandi ábendingar og hesturinn að bregðast við þeim. T.d. þegar við beygjum hestinn um okkar innri fót og færum afturhluta hans inn með okkar ytra fæti.
En mest áhrif hafa þessar æfingar, lokaður sniðgangur og afturfótasnúningur á forystuna og við höfum stefnuna algjörlega á valdi okkar þegar við fáum að færa allan hestinn inn með ábendingum frá ytri hlið, en ekki bara framhluta hans inn.