Safnað fet
Munurinn á stuttu feti þar sem hesturinn er látinn stytta skrefin á feti, sérstaklega skref afturfóta og er ágætur undirbúningur fyrir tölt og á söfnuðu feti er sá að hesturinn fyrir utan að stytta fetið fer að beygja meira í liðum afturfóta og þá sérstaklega í hæklum, fellir meira lend og tekur meiri þyngd af framhluta á afturhluta.
Best er að undirbúa hestinn við hendi, leggja þá reiðtauminn yfir hálsinn á honum og halda báðum taumum með hendinni sem er nær hestinum, þá hvetjum við hann gætilega fram í taumsambandið.
Þegar við notum písk höldum við honum í ytri hendi og látum hann liggja yfir olnbogabótina og snertum hestinn ofan á lend.
Hann þarf að vera léttur, fella höfuðið með hringaðan makka og alveg beinn (samspora) þegar hvatt er. Við vinnum þetta á mjög hægu feti sem næst í kyrrstöðu þess vegna er rétt að byrja hægt því það er auðveldara að halda hestinum léttum á taum ef við þurfum ekki að hægja á honum.
Það má aðeins hvetja hestinn þegar hann er alveg léttur og þá meina ég alveg léttur en ekki bara toga minna því þá fáum við hann ekki til að hneigja höfuðið, hringa makkann, lyfta bakinu og beygja hækilliðinn sem er jú tilgangur æfingarinnar.
Eftirgjöfin og umbunin sem hann fær á léttum taum kemur líka í veg fyrir uppnám þegar hesturinn er hvattur aftan frá á þennan hátt án þess að hann fái að auka hraðan.
Það er annað atriði sem er mjög mikilvægt þegar við æfum safnað fet. það er að hafa hestinn beinan og stilla framhlutann fyrir afturhlutann því það er erfiðara að stilla afturhlutann réttan við framhlutann þegar unnið er við hendi án þess að setja hestinn of mikið á tauminn.
Ef hesturinn flytur afturhlutann út og frá okkur og innri bóginn nær okkur, treystum við ytra taumsambandið, stillum síðan hestinn beinan og léttum innra sambandið með því að snúa upp á höndina þannig að innri taumurinn hækkar, minnkum framhvatninguna og færum pískinn að innri bógnum og hvetjum hann út, jöfnum síðan taumsambandið og færum pískinn aftur að lendinni.
Það er sjaldgæfara að hesturinn færi afturhluta að okkur og þá aðeins ef hann ver sig fyrir ytri taumnum, þess vegna er mikilvægt að skipta oft um hönd.
Þegar hesturinn lækkar að aftan af því hann beygir hæklana, hækkar að framan af því hann hefur flutt þyngd af honum á afturfætur, helst léttur og með hringaðan makka nokkrar hestlengdir hefur þú upplifað töfra augnablik (Magic moment) og þá er rétt að lofa hestinum að fá allan tauminn á löngu feti, setja hann þá gjarnan inn á lítinn hring svo við þurfum ekki að hlaupa á eftir honum þegar hann lengir sig.
Þegar við ríðum æfinguna leggjum við áherslu á sömu atriði en nú er auðveldara að hafa hestinn samspora því ef hesturinn er leikinn í að gera æfinguna að "stilla hest sitt á hvað", er auðvelt að færa framhlutann rétt við afturhlutann með taumunum og ef stemmningin er rétt, taumsambandið gott og af því hesturinn hefur lært lokaðan sniðgang má færa afturhlutann við framhluta með fótunum.
Ef hesturinn ýtir á tauminn er að öllum likindum ekki sátt um hraðann. Þá er mikilvægt til að lenda ekki í sítogi við hann, að hægja hestinn um eitt hraðastig í einu, gefa honum tóm til að létta sig og hægja þá um annað ef þurfa þykir.
Ekki hægja hestinn mikið í einu því þá er hættar við að hann setji sig í vörn. Mikilvægt er að lofa hestinum að teygja á sér með hæfilegu millibili með því láta hann fá taumsambandið sem við köllum taumur gefinn.
Safnað fet er hámark þess að láta ábendingar vinna saman (samverkandi ábendingar). Sérstaklega þegar riðið er nær kyrrstöðu og jafnvel í kyrrstöðu. Við fáum hvergi meiri einbeitingu. Æfingin er til að fá rétt jafnvægi fyrir töltskiptinguna því hesturinn ber hámark þess þunga með afturfótum miðað við framfætur sem hann ber á nokkurri annarri gangtegund eða í nokkurri annarri æfingu nema Levade en þá stendur hann bara á afturfótunum í kyrrstöðu.
Á þessu feti eigum við að hafa þá tilfinningu að við séum bókstaflega á tölti. Ef við þróum þessa æfingu, stöldrum við hvern þröskuld sem verður á vegi okkar og aukum síðan hraðann jafnt og þétt, fáum við hvern hest sem er (sem hefur á annað borð hæfileika) til að ganga hreint tölt og þá á þeim hraða sem hann hefur rými til hvort sem hann er skeiðlaginn eða klárgengur.