Lokaður sniðgangur

 

Opinn sniðgangur er sá undirbúningur sem hesturinn þarf fyrir Lokaðan sniðgang því hann er svipað beygður í báðum æfingum.
Munurinn liggur í:

Ef við hugsum okkur að við séum á 6 til 8m baug, með hestinn beygðan eftir ferli hringsins og viljum stækka bauginn án þess að tapa beygjunni myndum við ríða opinn sniðgang með hestinn beygðan úr þeirri átt sem riðin er

en ef við vildum aftur á móti minnka bauginn án þess að tapa beygjunni myndum við ríða lokaðan sniðgang, beygðan í þá átt sem riðið er.

Þegar riðinn er lokaður sniðgangur gengur hesturinn boginn í þá átt sem riðin er og flytur nú ytri fætur framfyrir innri fætur og ytri afturfótinn innundir sig í átt að þyngdarpunkti eins og hann gerði með innri afturfótinn í opnum sniðgangi.

Það sem við þurfum að æfa fyrst er áseta og ábendingar sem við notum við lokaðan sniðgang. Ekki ósvipað hægri eða vinstri ásetu, innri fótur er staðsettur um gjörð og hesturinn beygir sig um hann, ásamt því að hann færir framhluta hestsins frekar út en inn.

Ytri fótur okkar er staðsettur fyrir aftan gjörð og leitast við að færa afturhluta hestsins inn. Mjaðmir og þjóhnútur tengja þessa viðleitni og það kemur meyri þrýstingur á innri þjóhnútu en minni á þá ytri. Þessi beygju áseta léttir okkur að beygja hálsinn hæfilega og fá léttan innri taum. Það má æfa þessa ásetu ábendingar í kyrrstöðu eða á feti og beygja hann þá mest með fótunum og sætinu.
Það sem hesturinn þarf að kunna er opinn sniðgangur og víkja vel undan fæti við framfótasnúning og krossgang.

Ein aðferð til að fá hest sem er leikinn í að víkja unda hliðarhvetjandi fæti til að fara í lokaðan sniðgang gæti verið:
Við hreyfum okkur í opnum sniðgangi eftir skammhliðinni þar sem framfætur eru frekar á innri sporaslóð en afturfætur, nánar tiltekið ytri afturfótur er á ytri sporaslóð. Þegar við ríðum annað horn skammhliðar færum við framhluta hestsins út á ytri sporaslóð,og síðan ytri fótinn okkar vel aftur.
Á því augnabliki þegar hesturinn kemur á langhliðina og er að enda hornið hvetjum við með ytra hliðarhvetjandi fæti fyrir aftan gjörð afturhluta hestsins inn á innri sporaslóðina. Við höldum beygjunni með innri fæti um gjörð og innri taum og hvetjum hann fram að ytri taum sem heldur við ytri hlið hestsins.

Ef hesturinn svarar ytri fætinum og víkur með afturhluta að innri sporaslóðinni skal taka þrýstinginn af en hafa fótinn samt við og láta innri fótinn vera í aðalhlutverki. Ef hann er virkur um gjörð hefur hann þau áhrif að vöðvar á þeirri hlið dragast saman og hesturinn heldur frekar höfði sínu og hálsi í þá átt, einnig heldur hann sniðgangsbeygjunni og framgangi hestsins. Þegar hesturinn tekur nokkrar hestlengdir í lokuðum sniðgangi lofum við honum að ganga á löngum taum til að umbuna.

Önnur aðferð og þá fyrir hest sem er leikinn og fús að stilla og sveigja höfuð og háls, en síðri að víkja undan hliðarhvetjandi fæti færir treglega ytri aftur fótinn fram fyrir innri og víkur ekki með afturhlutann að innri sporaslóðinni, er ráð að stoppa og byrja svo á því að hvetja með ytri fæti til hliðar, þegar hesturinn svarar líkt og hann ætli fyrsta skrefið í framfótasnúning setjum við hann af stað með innra fæti um gjörð.Eða að við byrjum á að láta slíkan hest víkja undan ytri hliðarhvetjandi fæti í krossgangi og þegar hann byrjar að svara hinum hliðarhvetjandi fæti stillum við höfuð og háls í þá átt sem riðið er í svo úr verði lokaður sniðgangur.

Þeim hestinum sem hættir til að rétta sig af og setja sig á móti innri taumnum þegar þeir finna fyrir og svara ytri hliðarhvetjandi fætinum má leiðrétta með því að færa þá inn í opinn sniðgang nokkrar hestlengdir og svo aftur í lokaðan þegar við höfum leiðrétt beygjuna og fundið léttleika á innri taum. Í þessu tilfelli er betra að ríða frá skammhlið á miðlínu og frá henni ríðum við í lokuðum sniðgang að sporaslóð því þá höfum við meira pláss fyrir framhluta hestsins ef við þurfum að leiðrétta hestinn með opnum sniðgangi.

Þegar hesturinn svarar vel ábendingunum og gengur lokaðan sniðgang er rétt að stöðva hestinn í sniðgangnum og láta hann halda honum eftir stöðvunina. Við þetta festum við sniðgangs beygjuna og höfum næði til að láta slakna alveg á innri taumnum.

Annað atriði sem gerir æfinguna meira fljótandi og léttari fyrir hestinn, af því að hún auðveldar ytri afturfæti að stíga framfyrir innri afturfótinn og innundir þyngdina er að flytja þunga okkar aðeins inn í takt við það þegar hesturinn lyftir ytri afturfætinum.

Eftir því sem við og hesturinn verðum leiknari, ríðum við lengur í æfingunni, fleiri sporaslóðir og á frjálsum vangi áður en við umbunum hestinum á löngum taum.

Lokaður sniðgangur er erfiðasta æfingin sem riðin er á tveimur sporaslóðum, sem þýðir að hesturinn gengur með framhlutann á einni sporaslóð en afturhlutann á annarri.

Það að beygja hestinn á þennan hátt með ásetunni og á milli fótanna eða innri fótar framar og ytri fótar aftar, léttir okkur innra taumsambandið og auðveldar að gera hestinn samspora.

Þegar hesturinn er orðin leikinn í að svara ábendingum fyrir lokaðan sniðgang má nota þær í minna mæli á öllum gangi til að ná réttri stillingu og góðu jafnvægi um horn á baug eða boginni linu.

Hún gefur okkur einbeitingu og skilyrðislausa og óskipta athygli hestsins.

Hingað til höfum við eingöngu haft afgerandi áhrif á innri hlið hestsins eða réttara sagt innri hlið afturhlutans, en við lokaðan sniðgang förum við að hafa meiri áhrif og stjórn á ytri hliðinni.

Bara það að geta þjálfað og gert hestinn liðugan í að færa afturfæturna undir þyngd sína, innri afturfót þegar við ríðum opinn sniðgang en ytri afturfót þegar við ríðum lokaðan er fyrirhafnarinnar virði.

Lokaður sniðgangur gefur okkur einbeitingu og skilyrðislausa og óskipta athygli hestsins.