Er skeið ekki lengur í tísku?

Ég las bréf frá Herbert Ólafsyni í Eiðfaxa um stefnur í reiðmennsku og var honum í mörgu sammála.

Við erum mjög áhrifagjörn og viljum vera í tísku og það er ekki í tísku í dag að ríða skeið. Eins og Trausti Þór sagði við mig um daginn, við sjáum ekki lengur venjulegt fólk hleypa skeiðsprett á Rauðavatni á sunnudagsmorgni.

Það þótti engin frágangssök að ríða ganandi hesti en nú er í tísku að halda hestinum í orðsins fyllstu merkingu í lágum höfuðburði. Alltof margir ráða ekki við það og missa hestinn of mikið á tauminn og of mikið á framhlutann.

Það má fara einhvern milliveg, það dugar að hafa hnakkabeygju sem gerir hestinum fært að nota bakið, en þó það reistur að hann haldi réttu jafnvægi, eða þyngdarhlutföllum á milli fram- og afturhluta.

Við erum að færa í tísku það sem aðrir eru að hverfa frá, eins og að einangra hesta sem mest í lokuðum rimla stíum, leyfa honum ekki að fara út öðruvísi en einum svo hann ekki skaði sig eða aðra, hreyfa hann á vélknúnum tækjum og farartækjum eða syndandi eins og fisk.

Þetta á kannski allt einhvern rétt á sér og við viljum honum vel, annast öryggi hans og hafa hann í góðu líkamlegu ástandi. En við verðum samt að hafa það í huga að fara ekki langt frá eðli hans. Hann er hópdýr og þarf að komst í nálægð og helst í snertingu við aðra hesta.Við vinnu þarf að hafa ofan af fyrir honum, veita honum verkefni sem hann getur leyst og sér tilgang í.

En svo ég snúi mér að efninu þá getum við ekki kennt hrossaræktinni um það hvað það er riðið lítið skeið Ég hafði persónulega áhyggjur af því fyrir svona tíu árum, en eftir síðasta landsmót sannaði alhliðahesturinn það að hann getur tölt og brokkað fullkomlega til jafns við klárhestinn.

Hrossaræktarmenn sjá það líka að ef við töpum skeiðinu töpum við rýminu og svo töltinu alveg eins og hefur skeð hjá öðrum hestakynjum.

Það er að einhverju leiti keppnisformið sem á sök á þessu skeiðleysi, unglingarnir velja sér frekar klárhest til að keppa á sérstaklega fyrir landsmót. Einnig er höfð uppi sú bábilja að það að ríða skeið skemmi töltið. Það er eins og með allt annað, það fer eftir því hvernig það er gert. Snjall skeiðsprettur á að bæta töltið, meiri teygja, betri taktur og meira rými, alveg eins og töltþjálfun getur bætt skeiðið, betra jafnvægi og meiri stjórnun.

Mig langar að enda þennan formála, sem á að vera fyrir þjálfun skeiðs, á því hvernig sagt var að sunnlendingar hafi riðið áður en tölt komst í tísku, miðað við hvernig Skagfirðingar riðu.

Sunnlendingar riðu Brokk og Skeið og töldu að töltreið væri einungis fyrir vanfærar konur, drukkna menn og aðra umrenninga. Skagfirðingar hins vegar riðu Tölt og sungu við af hjartans list.