Vilji – Orka – Einbeiting

Til að ná samstillingu fljótt og vel nægir oft að hafa nægan vilja, orku og einbeitingu.

Ég nota þessi þrjú orð af því mér finnst gæta misskilnings hjá mörgum hvað sé vilji. Vilji er orka og einbeiting undir stjórn og hesturinn getur ekki notað viljann án samstillingar og engin samstilling er án vilja.

Vilji er andlegt og líkamlegt ástand hestsins til að svara ábendingum knapans fljótt og vel fram og halda framgangi án aðstoðar.

Hestur sem er viljugur er sá sem í æfingu eða á gangtegund heldur samstillingu án þess að fara í uppnám eða vera borinn uppi af knapanum því það eru heimar á milli uppnáms og vilja.

Vilji er meira fiðringur í hestinum en ekki endilega metin eftir hlaupunum sjálfum. Við verðum að lána hestum vilja sem fá hann ekki í vöggugjöf með hvatningu en oft dugar að hægja ferðina til að ná orku og einbeitingu hjá slíkum hestum.

En það erfiðasta við að ná upp eða halda nothæfum vilja er að skapa ekki spennu með of mikilli þvingun t.d. viljugir hestar þvingaðir með því að toga stöðugt í þá, eða minna viljugir hestar stöðugt hvattir.

Æskilegast er að ná upp nægum vilja og einbeitingu fyrir, sem hæfir viðkomandi gangtegund, æfingu eða hraðaaukningu. Þá gerir hesturinn æfinguna mikið til sjálfur með lágmarks áréttingum. Þá er líka minni hætta á að knapinn verði ofvirkur á meðan hesturinn gerir æfinguna eða gangskiptinguna.

Söfnun, burður, að setjast og lækka lend

Þetta eru allt orð sem notuð eru um það þegar hestur er undirbúinn fyrir erfiðar æfingar og sér í lagi tölt. Hann er þá samstilltur og viljugur, léttur við taum og með hringaðan makka þannig að taumhaldið virkar á hálssetninguna. Þá byrjar söfnunin þar um herðar, brjóst og bóga.

Af hverju brjóst? Því brjóstkassanum í hestinum er haldið uppi að meira eða minna leiti af vöðvum, hann hefur ekki viðbein eins og við. Því þarf hann að ná góðum tökum á honum og halda honum vel uppi. Þá fyrst nær hann sterku og fjaðrandi baki og getur lækkað lend. Þetta er allt nauðsynlegur undirbúningur fyrir burðinn, söfnunina og síðan töltið.

Allt annað er að setja hest á tölt í hálfgerðri hvíldarstöðu. Það sem hefur verið talið að kæmi næst eða nokkuð samhliða er að hesturinn gangi lengra inn undir sig og taki við meiri þyngd á afturfæturna en framfæturna á þann hátt.

Rannsóknir við Dýralæknaháskólann í Vín í Austurríki sýna með nákvæmum mælingum á mismunandi hestum og mismunandi knöpum við mismunandi æfingar, að það sé ekki raunin. Dr. Michael Kapaun fullyrðir að það að ganga langt innundir sig sé háð hraða og hestur taki ekki meiri þyngd á afturfæturna heldur en framfæturna þegar hann er safnaður, hann jafnar þyngdarhlutföllin. Hestur frjáls (ekki riðið) eða á lulli ber um 60% á frampartinum. Hestur á hægu tölti jafnar burðinn með því að beygja vel liði í afturfótum og ber lengur með þeim.

Hann hefur þá lengur á jörðu en flýtir framfætinum þannig að hann er lengur á lofti, þá lækkar hesturinn að aftan en hækkar að framan.

Háls sem er vel hringaður strekkir á háls bakbandinu sem liggur á og eftir endilöngum háls og hryggsúlu og hjálpar bakvöðvum að strekkjast og allt bakið lyftist.

Þetta band er tekið úr sambandi ef hestur ver sig fyrir taumsambandi eða ganar. Þess vegna getur hann aðeins fullkomnað söfnunina ef hann er við taum í hnakkabeygju, með hringaðan makka og taumsambandið virki á hálssetningu og þar með á allan hestinn en ekki bara á höfuð hans.

Mörg okkar hafa örugglega upplifað það eða séð að hestur gengur þvingað á hægu tölti en óþvingað og takthreint ef honum er riðið frjálslega með minna taumsamband á meiri hraða. Þá er það þetta sem gerist, við það að fá frjálsræðið fellir hesturinn aðeins hálsinn, teygir á yfirlinu sjálfur og getur gengið með sterkt fjaðrandi bak.

Þess vegna er annað hvort að við hjálpum ekki hestinum eða að við stöndum ljóst og leynt í vegi fyrir honum ef þetta gerist t.d. ósætti í taumsambandi sem leiðir þá í afturfætur og veldur kroppsspennu. Það kemur líka til að hestar eru misviðkvæmir fyrir þessu. Hestur með stuttan og lágsettan háls er viðkvæmari en hestur með lengri og háttsettan háls.

Það sorglega hinsvegar í þessu sambandi er að hestar með of reistan háls geta verið hágengir stuttan tíma eða á meðan bakið heldur, vegna þess að það er vöðvi sem liggur frá bóglið um háls og upp í hnakka sem hefur áhrif á hæð og lengd framfótaskrefa eftir reisingu.

Þess vegna er varasamt í hita leiksins, fáfræði eða að hafa ekki þolinmæði til að lofa hestinum að hringa og fella hálsinn örlítið. Ná tökum á framhlutanum þar með töldum brjóstkassanum og bak. Ná svo fram reisingunni þegar hesturinn fellir lend, dregur saman magavöðvana og kreppir liði í afturfótum. Þá dvelur hann með þá lengur á jörðu en á lofti og getur gengið öflugur fram. Það er söfnun.

Þó íslendingar hafi ekki langa hefð í reiðkennslu hafa þeir langa hefð í reiðmennsku og hestamennsku. Þeir hafa haldið í hana ásamt reynslu gamalla reiðlistamanna en þeir hafa einnig verið duglegir að læra og tileinka sé nýjungar í reiðmennskunni og hætta aldrei að læra.

Reiðmennska byggir á þremur þáttum. Tilfinningu eða meðfæddum hæfileikum, tækni eða líka oft kallað handverk og í þriðja lagi lærdóm (vísindi). Það er meðal annars það sem við höfum verið að fjalla um hér.

Portúgalski reiðsnillingurinn Nuno Olívíera sagði:

“Reiðlist er eintal við hestinn í leit að samkomulagi og fullkomnun”.