Samstilling – Samhljómur – Kadenz

Kadenz er alþjóðlegt orð úr hljómlistarmáli, þegar hljómsveit spilar eða þegar fleiri syngja og hljóðfærin eru stillt saman eða raddirnar hljóma saman í t.d. endatón.   Mér finnst vel við hæfi að líkja reiðlist við hljómlist því þetta hefur svo margt sameiginlegt. Þurfum við bara að líta á mörg hestanöfnin til þess að sjá tenginguna.

Hvað er samstilling eða Kadenz í reiðlistinni?

Það er hrynjandi aukins vilja undir stjórn þar sem hestur lætur að öllum ábendingum án þess að verja sig og hreyfir sig í góðu jafnvægi frá einni hreyfingu í aðra, með sterka yfirlínu og hringaðan makka.

Þetta er afleiðing undirbúnings þegar hesturinn hefur fengið sanngjarna upphitun, honum slakað, settur í gott jafnvægi og síðan vakinn til verksins.

Hestur sem er samstilltur er ekki sofandi hestur heldur er það hestur sem þú getur verið rólegur á en er áfram kraftmikill.

Án samstillingar er engin nothæf reiðmennska, því ef við missum hana þá tekur hesturinn ráðin, hann þarf ekki að rjúka. Það dugar að hann taki völdin á hraðanum í sínar hendur, gæti þess vegna verið á feti, missir traustið á okkur sem leiðtoga og fer að verja sig fyrir taumhaldi.

Það eru til knapar og hestar þar sem hesturinn er búinn að taka ráðin, treystir ekki knapanum af því hann skilur ekki ábendingarnar.

Þessi hestur hefur tekið við leiðtogahlutverkinu og knapinn er hreykinn af því hann stendur í þeirri trú að þetta sé vilji.