Reiðlist

Við heyrum sjaldnar minnst á reiðlist eða listamann í sambandi við reiðmennsku en áður.

Við heyrum oftar talað um mikill keppnismaður, skeiðreiðarmaður, íþróttamaður.

Við heyrum líka oft talað um hraða, fótaburð, takt og hvort hesturinn sýnist viljugur. Þetta eru góðir eiginleikar, en þetta er ekki allt sem dæmir um það hvort um góða hestamennsku eða reiðlist er að ræða.

Það er langur vegur á milli þess hvort hestur er undir stjórn og svarar ábendingum af því hann kýs það sjálfur og þær hjálpa honum að ná valdi á líkama sínum og jafnvægi til afreka,  eða hesti sem ver sig gegn ábendingum öðrumegin eða báðum, heldur tilviljunarkennt jafnvægi beint eða á afmörkuðum hring,   spenntur og hræddur.

Það er líka langur vegur á milli þess að geta látið fullmótaðan hæfileikaríkan hest hlaupa gangtegundir til afreka sem annar hefur þjálfað og undirbúið, eða temja hest til slíkra afreka.

Fá hann til að skilja og svara ábendingum fús af eigin vilja.   Samspora með sterka og fjaðrandi yfirlínu og hringaðan makka, lágan á lend og háan um herðar og hálssetningu á öflugum takthreinum gangi.

Það er reiðlist.