Opinn sniðgangur

Opinn Sniðgangur er æfing sem af sumum er kölluð konungsæfingin. Hún getur verið lykillinn að lausninni eða lausnin sjálf. Francois Robichon de la Gueriniere, sá sem þróaði æfinguna og gaf henni nafn, sagði

„þetta er fyrsta æfing sem ég ríð hesti og síðasta“

                          Francois Robichon de la Guerniere


Þegar hestur gengur eða hleypur misbeygður fram, úr þeirri átt sem hann er beygður til. Þegar hesturinn gengur það boginn að þegar horft er framan á hann sjást þrír fætur. Ef hann er til dæmis beygður til hægri en riðið til vinstri sjást hægri framfótur, vinstri framfótur en hann skyggir á hægri afturfót og svo sést vinstri afturfótur, þá er sagt að hann gangi á þremur sporum. Ef hann er meira beygður þá gengur hann á fjórum sporum.

Ef hestur er stilltur í hálsi en bolurinn er beinn er hann nefndur hálfur sniðgangur eða að stilla hest.

Það má líkja opnum sniðgang við að opna baug, miðað við að lokuðum sniðgang þar sem hestinum er riðið í þá átt sem hann er beygður til við að loka baug.

This slideshow requires JavaScript.

Opinn sniðgangur þjálfar okkur í að láta hestinn flytja fætur sína, svo hann sé ávalt í sem bestu jafnvægi.

Sniðgangur er liðkandi, leysandi og safnandi æfing. Hún þjálfar hest í að beygja sig og hreyfa sig beygður.

Við æfumst í að taka upp og halda taumsambandi við ytri taum sem heldur mjúkri hnakkabeygju og hringuðum makka. Hann afmarkar hversu mikið hesturinn beygir sig eða sveigir hálsinn og stjórnar hraða.

Innri taumur beygir hestinn en skal þess á milli hafður sem léttastur en sambandið skal þó vera það jafnt að mélin haldist jafnt í munni hestsins.

Sniðgangur krefst fullkominnar einbeitingar og jafnvægis, þjálfar innri afturfót í að færa sig undir þyngd og tekur á sig meiri þyngd.

Opinn Sniðgangur er safnandi æfing og því góður undirbúningur fyrir tölt. Æfingin gerir hesta jafnvíga og samspora ef hún er riðinn á báðar hendur.

Hún er undirbúningur fyrir lokaðan sniðgang sem svo er undirbúningur fyrir afturfótasnúning og jafnvel litla hringi um afturfætur (Pirouette).

Undirbúningur þarf að vera þannig að hesturinn sé við taum 100% einbeittur. Hann þarf að vera alveg léttur, það sannar að hann er spennulaus og í jafnvægi með bakið sterkt og mjúkt.

Það þarf ekki nauðsynlega að vera búið að kenna hesti að svara hliðarhvetjandi fæti þegar byrjað er að undirbúa æfinguna, það nægir að hann beygi sig um þinn innri fót t.d. á baug. Forsenda fyrir því er afgerandi hægri eða vinstri áseta eftir því í hvora áttina er riðið, láta hestinn beygja sig hæfilega um þinn innri fót eftir tamningastigi og hvort það er sterkari eða veikari hliðin.
Þó ávallt það mikið að innri taumur verði léttur og sem oftast slakur.
Ef hesturinn er einbeittur, hæfilega safnaður og ytri taumurinn myndar ramma þannig að hesturinn beygi hæfilega háls og bol, hringi makkann og sé á réttum hraða. Þá byrjar hann að færa innri afturfót meira undir þyngd sína.

Það má segja að þegar þetta er fengið höfum við gert hestinn móttækilegan fyrir innri hliðarhvetjandi fæti sem síðan fullkomnar æfinguna.
Ytra létt taumsamband er það sem afmarkar hversu mikið hesturinn er beygður, hann setur hestinn við taum (í hnakkabeygju) og stillir hraðanum í hóf en betra er að ríða hægar því innri afturfótur þarf að leita fram fyrir ytri afturfót og undir þyngdina.

Æskilegt er með óvana hesta að spyrna létt í ytra ístað eða flytja þungann örlítið út. Gera þetta þegar innri afturfótur er á lofti, það léttir honum að færa fótinn undir sig.

Þegar hesturinn er farinn að svara innri fæti og víkur og beygir sig um hann, staðsetjum við ytri fót aftar og aðeins hamlandi. Hægast er að undirbúa hestinn á boginni línu eða baug, stækka svo bauginn þangað til hægt er að ríða sem beinast og svo beint fram með boginn hest.

Ef við missum léttleikann á innri taum og eða hesturinn tapar beygju, er rétt að létta innri tauminn með því að færa innri höndina leiðandi inn til að árétta beygjuna og láta léttast á taumnum.
Þá skal færa þennan innri taum aftur að hálsi og hafa hann fingurbreidd hærri en þann ytri. Þegar hesturinn léttist og beygir hálsinn látum við hann hafa léttan innri taum og notum fótinn.

Ef hestur leggur of mikinn þunga á ytri bóg og framfót færum við báðar hendur inn og treystum samband á ytri taum, ef hann leggur of mikla þyngd á innri framfót færum við báðar hendur út.

Eftir leiðréttingu færast hendur alltaf á hinn upphaflega sama stað yfir herðum.

Opinn Sniðgangur veitir okkur hámarks einbeitingu og stjórnun á hraða og stefnu. Fullkomnar skilning og sátt í taumsambandi, liðkar háls og opnar leið til að stjórna því hvort hesturinn hafi jafnvægi á framhluta.

Ytri taumur, áseta okkar og innri fótur hafa áhrif á það hvort hesturinn færir innri afturfót undir þunga sinn beygir í liðum og dvelur í sporinu. Það gefur okkur möguleika á að þjálfa hest í að nota afturfætur ef æfingin er gerð jafnt á báðar hendur, til að bera meira en að spyrna, sem er þá góður undirbúningur fyrir gott tölt þar sem hann þarf að bera meira en hann spyrnir.