Höfuðburður reising og bak
Það er að geta látið hestinn lækka höfuðið og fremsta hluta hálsins með því að létta hestinn fella höfuð en látið hann halda reisingu sem hæfir þeirri gangtegund eða æfingu sem riðin er.
Þó það finnist einhverjar endurtekningar í þessum kafla er þetta það mikilvægt atriði að það má.
Mikilvægt er það af því hesturinn þarf halda sterku baki þó reising sé mismikil.
Við þurfum að geta framkallað þetta á öllum gangtegundum við allar æfingar og sem undirbúning fyrir hraðaaukningu.
Forsendan er að hesturinn þekki leiðina niður og að þú getir vísað honum þangað. Að vísa hesti niður er einfaldlega það að létta hest niður þangað til hann er teygður niður og fram.
Við sjáum oft hesta sem fara af stað í töltið í vaggandi skeiðhreyfingu en hreinsa sig eins og sagt er þegar hestur jafnar taktinn, fer að ganga hreint tölt þegar hraðinn er aukinn. Eða við sjáum í töltkeppni skeiðbundið hægt tölt en við hraðaaukningar og á yfirferð er það takthreint. Ástæðan er í flestum tilfellum ekki að hesturinn sé ófær um að ganga hægt tölt heldur sú að hann fær ekki að fella höfuðið nóg og framanverðan hálsinn til að hann lyfti frambakinu og eigi auðvelt með að fella lend og finna gott jafnvægi á hæga töltinu. Á hraðanum aftur á móti þegar honum er hleypt fram á meiri ferð og það léttist á taumhaldinu, fellir hann sjálfur höfuðið og framhálsinn og lyftir bakinu af því hann fær frið til þess. Þetta eru oft sentímetrar sem skilja á milli feigs og ófeigs hvað þetta snertir. Ástæðan fyrir því að þetta er svo mikilvægt er að af því að hryggsúlan er ein heild frá eyrum og aftur í tagl. Þannig að ef hesturinn fellir höfuðið og hringar makkann þá lyftist bakið og verður sterkt og mjúkt. En lyfti hann höfðinu og í versta falli fetti hálsinn, verður bakið fatt því hesturinn stjórnar bakinu með hálsinum. Af því að hálsinn er líka jafnvægisstöng og þegar hesturinn er reistur færist þungi sem var á framhluta á afturhluta.
Þó þetta sé ekki alveg auðvelt er listin að fá hestinn léttan, lofa honum að fella höfuðið í létt taumsamband og hringa makkann þá á hann auðvelt með að fella lend og halda virku baki. Þá má fullreisa hestinn og gera það aftan frá, varast að láta hvatningu eða framgang hestsins annars vegar og taumsamband hinsvegar vinna hvort á móti öðru.