Hindrunarstökk
Er þegar hesturinn er látinn stökkva yfir hindrun, tilbúna eða náttúrulega. Tilbúnar hindranir geta verið upphækkaðar brokkspírur, tunnur sem lagðar eru á hliðina eða sérsmíðaðar hindranir. Hinar náttúrulegu hindranir eru þær sem verða á vegi þínum og ekki er hægt að yfirstíga, skurður eða lækur með háum bökkum eða djúpu vatni.
Þegar hesturinn er orðinn leikinn í að brokka yfir brokkspírur má sýna honum tilbúna hindrun. Það er mikilvægara að hesturinn sjái og venjist henni heldur en að þvinga hann yfir og leiða hestinn frekar framhjá hindruninni en að stoppa hann fyrir framan hana þangað til hann sættir sig við hana.
Þegar hesturinn er síðan látinn stökkva er skynsamlegt að hafa hann án knapa í byrjun, með eða án taums og annað hvort að hvetja hann til að stökkva eða knapinn lætur hestinn fylgja sér yfir meðan hindrunin er lág, hækka svo hindrunina smátt og smátt og haga aðstæðum þannig að hindrunin sjálf, sérstaklega miðjan á henni sé vænsti kosturinn, allt annað sé hærra og hafa aðstoð til að standa að eða reka á.
Byrja fljótlega að hækka hindrunina og gera hana fyrirferðameiri því annars er hætta á að hesturinn hætti að bera virðingu fyrir henni og hlaupi á í stað þess að stökkva yfir.
Mikilvægt er að hafa hindrunina ekki fasta í byrjun og hafa ekki á henni skarpar brúnir til að minnka slysahættu.
Til að létta hestinum að meta fjarlægð og auðvelda honum stökkið er rétt að leggja spíru um það bil 6 fet frá hindrun, láta hestinn brokka að og yfir spíruna, hvetja hann þá til að taka eitt stökkskref áður en hann fer yfir hindrunina.
Þegar við förum að ríða hindrunarstökkið skal stytta um minnst tvö til þrjú göt í ístöðunum og sitja í léttri ásetu.
Þegar riðnar eru náttúrulegar hindranir skal hafa svipaðan undirbúning, sýna hestinum, teyma hann yfir í fyrstu og hafa aðstoð. Ef hesturinn er vel undirbúinn stekkur hann yfir flest ef aðstæður og hindranir eru svipaðar og hann þekkir. Ísenskur hestur stekkur hæglega allt að 120cm á hæð og 2m að lengd.
Hestar verða einbeittir, ákveðnir, leiknir og venjast því að treysta knapanum.
Knapinn þjálfar og æfir léttu ásetuna og fær gott jafnvægi verður ákveðinn að ríða fram og taka áhættu, báðir fá nauðsynlega tilbreytingu.