Hesturinn stilltur sitt á hvað

Hestur stilltur til hægri á tölti

Þegar talað er um að hestur sé stilltur er það aðeins höfuð háls sem er beygður, höfuðið sem er í hnakkabeygju og hálsinn færast til hægri eða vinstri en bakið beygist ekki.

Munurinn á að stilla hest og beygja hest þegar hann er allur mismikið beygður frá eyrum aftur á tagl, er að þegar talað er um að hestur sé stilltur er það aðeins höfuð háls sem er beygður, höfuðið sem er í hnakkabeygju og hálsinn færast til hægri eða vinstri en bakið beygist ekki. Við stillum hestinn fyrst á léttu hliðina. Innri taumur á að verða alveg léttur og við fáum þá tilfinningu að þunginn á framhluta færist aðeins meira á ytri bóg. Þá stillum við hann á hina höndina, fyrst á feti svo á tölti. Góður undir búningur fyrir að stilla hest svo hann verði alveg léttur á innri tauminn eru vel riðnir baugar og opinn sniðgangur.

Ef við erum leikin í æfingunni að létta hest á innri taum og stíga fram að ytra taumsambandi við hendi og hesturinn gengur góðan opinn sniðgang á feti erum við vel undirbúin. Við ríðum fet annaðhvort á innri sporaslóð eftir miðlínu eða fjórðungslínu sem er mitt á milli miðlínu og fyrstu sporaslóðar. Það má líka ríða á miðri reiðgötu því þessa æfingu má gera með árangri nokkurn vegin hvar sem er. Við aukum viljann og hægjum fetið þannig að það verði frekar safnað en ekki langt. Ef hesturinn er léttur og með hringaðan makkann, lyftum við taumnum sem við ætlum að stilla hestinn til. Ef taumurinn er ekki léttur færum við höndina örlítið leiðandi inn þar til kemur sveigja á hálsinn og taumurinn léttist. Þá færum við hana aftur að herðum. Leitumst við að léttleikinn og stillingin haldist með því að færa hana örlítið hærra en hina höndina sem verður ytri.

Við höldum sambandi við ytri tauminn sem er örlítið lægri og leiðandi heldur hæfilegum hraða og afmarkar stillingu á höfði og hálsi.

This slideshow requires JavaScript.

Við hvetjum hæfilega fram með ásetu og fótum en notum innri fótinn og þá aðeins framar eða við gjörð, meira til að halda léttleika á innri taumnum eða jafnvel til að leysa hann alveg af hólmi nokkur augnablik í einu. Þegar hesturinn er orðin leikinn á feti reynum við æfinguna á tölti. Góð byrjun er í horni eða gatnamótum og halda svo áfram beinu brautina.

Með þessari æfingu náum við valdi á framhluta hestsins og getum hjálpað honum að finna og halda góðu jafnvægi t.d. ef hann heldur of miklum þunga á öðrum framfætinum. Það gerist iðulega þegar riðið er um horn að hesturinn færir þungann meira á innri hliðina, missir góða jafnvægið og hoppar upp á fótinn eins og það er kallað eða missir alveg gangtegundina sem hann var á. Ástæðan fyrir skeiðlagni (lulli) er oft sú að hesturinn ber of mikinn þunga á framhluta og jafnvel dvelur stöðugt með of mikinn þunga á annarri hliðinni. Þá þýðir ekki að virkja afturhlutann eða reyna að safna honum heldur verðum við að leiðrétta jafnvægið og stilla framhluta rétt fyrir afturfætur áður. Við þessar leiðréttingar er þessi æfing að geta fumlaust og án togstreitu stillt hestinn sitt á hvað kjörinn undirbúningur.