Ganga aftur á bak

 

 

Er þegar hestur er hvattur fram að hamlandi ábendingu t,d taumhaldi, og í stað þess að stíga skrefið fram stígur hann aftur, eitt eða fleiri skref og fær umbun fyrir.

Ef búið er að undirbúa hest þannig að hann skilur taumsambandi og kann að bregðast við því. Hefur lært að stíga skrefið aftur á bak við hendi er hann vel undirbúinn.

Hesturinn er ávalt látinn stíga skrefin aftur á bak úr kyrrstöðu. Eftir að hafa gert æfinguna eftirgjöf og umbun, er hann hvattur með fótum og sæti fram í taumsamband sem hann virðir. Honum er varnað að stíga skrefið fram, svo hann stígur skrefið aftur. Ef hik verður á viðbragði er ráðlegt að vekja athygli á sér með hvetjandi hljóði t.d. að smella í góm. Þegar hesturinn sínir viðleitni að stíga skrefið þó það sé ekki fullkomið í fyrstu skal umbuna honum með því að létta á taumsambandinu og baki hestsins með því að færa sig í hálflétta ásetu. Þegar hesturinn fer að skilja æfinguna og stígur aftur á bak, er rétt að sitja létt í hnakknum og hvetja einungis með fótum og umbuna einungis með því að létta á taumsambandinu. Sjálfsagt er að nota auka ábendingar sem eiga við hestgerðir, eins og hljóð, písk eða aðstoðarmann.

Þá notum við hvetjandi hljóð til að örva athygli á öðrum ábendingu, róandi hljóð til að undirstrika rétt viðbrögð. Písk ef hesturinn þekkir snertingu t.d. framan á fót eða bóg. Aðstoðarmann sem undirstrikar æfinguna eins og hesturinn hafði lært hana við hendi.

Eftir því sem hesturinn verður leiknari í að ganga aftur á bak, má ríða fleiri skref hvert á eftir öðru. Þá þannig að við undirbúum annað skrefið áður en að hann klárar fyrsta skrefið þannig að æfingin verði fljótandi og hesturinn haldist einbeittur. Leggja skal áherslu á að umbuna fyrir hvert skref svo ekki verði tauma tog og skipulagslaus samfella.

Það að láta hest ganga aftur á bak, styrkir leiðtogahlutverk okkar, léttir taumsamband og fær hestinn til að gefa eftir í hæklum og liðum afturfóta.

Þegar hestur víkur aftur á bak frá öðrum hesti þýðir það að hann virði hann og gefi sig fyrir honum.