Brokkspírur (kavalettí)

Þegar spírum er raðað á jörðina með jöfnu millibili eða c.a. 2 1/2 til 3 1/2 fet eftir stærð og skreflengd hestsins og hvort hann á að feta yfir eða brokka. Æskilegt er að geta haft þær í breytanlegri hæð minnst c.a. 20 sm. frá jörðu og hafa þær tvær eða þrjár svo fleiri eftir því sem hesturinn verður leiknari.

Rétt er að staðsetja spírurnar þannig að það sé aðhald að þeim minnst á annan veginn í fyrstu t.d. á langhlið eða á hringgerði. Hafa hestinn í taumhringstaum eða frjálsan ef unnið er í hringgerði. Aðalatriðið er að hann geti hreyft sig frjálst og óþvingað. Hesturinn er sendur á feti fyrst. Þegar hann fer að feta örugglega yfir teygir sig niður og fram má fara að hvetja hann yfir á brokki. Byrja með eina eða tvær spírur og bæta svo við eftir því sem hesturinn sættir sig við, annars er hætt við að honum vaxi í augum. Auka upp í hæsta lagi þrjár í fyrstu skiptin. Hafa hæfilegan þrýsting á hestinum til að fá og halda einbeitingu en varast uppnám.

Þegar riðið er skal stytta í ístaðsólum um tvö til þrjú göt til að auðvelda okkur að sitja í léttri ásetu.

Þegar við ríðum að brokkspírunum fyrst á feti síðan á brokki skal hafa vald á hraða örugga stefnu og hleypa höfði og hálsi niður tímanlega áður en hesturinn stígur yfir þær.

Það gerum við með því að lengja tauminn eins mikið og hesturinn vill fá hann og létta ásetuna þannig að þungi okkar hvílir á ístöðum hnjám og innanverðum lærum. Halda þar góðu jafnvægi við hann.

Yfirleitt þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því að hesturinn fari í uppnám eða of hratt í verkefnið því hann er upptekinn af að skoða og stíga yfir brokkspírurnar ef hann er yfirvegaður fyrir.

Brokkspírurnar eru notaðar til að fá hest til að teygja á hálsi og yfirlinu, auka brokk og brokköryggi. Jafnvel til að hjálpa hestinum að finna það.

Þessi æfing eykur svif og fjaður í baki hestsins og styrkir yfirlínu hans. Fær hann til að teygja sig, því hann skal lúta fram og niður yfir spírunum.

Hesturinn verður eftirtektarsamur og athugull, því hann verður að gæta þess hvar hann setur fæturna og hversu hátt hann lyftir þeim. Það má auka fótaburð hesta með því að hækka hæfilega spírurnar þegar hann er orðinn leikinn. Knapinn verður leikinn í að fylgja hesti sínum án þess að hafa þungann í hnakknum og fær gott jafnvægi.