Snertiskyn

This slideshow requires JavaScript.

Snertiskynið er mjög mikilvægt þegar kemur að reiðmennsku og þjálfun hesta.
Flóttaeðli hestsins veldur því að hann bregst við óþægindum með því að víkja undan þeim. Sú vitneskja auðveldar manninum að „kenna“ hestinum að bregðast rétt við ábendingum eins og að víkja undan fæti við síðu og taumhaldi. Í fyrstu getur þurft að nota fremur grófar ábendingar en ef rétt er að farið lærir hesturinn fljótt og unnt verður að notast við æ fínlegri og fjölbreyttari ábendingar.

Það vill bregða við að næmi hestsins sé vanmetið. Líklega stafar það af því að feldur íslenskra hesta er þykkur og hestar virðast þola vel sársauka. En þó sjáum við að hestur getur fundið fyrir flugu. Það er varasamt að vanmeta þennan næmleika því ef stöðugri hvatningu er beitt t.d. þegar menn berja fótastokkinn eða beita stanslausum þrýstingi á síður hestsins er hætt við að hann sljóvgist fyrir snertingunni og hætti að bregðast við eins og knapinn vill.

Aftur á móti ef hann lærir að víkja undan léttri snertingu fóta, gefa eftir taumhaldi og fær að upplifa jákvæða afleiðingu af viðbrögðum sínum, sem felst í því að þrýstingi fóta er aflétt og taumur slaknar, verður hann æ næmari fyrir ábendingum. Þannig nýtist snertiskynið til að þjálfa rétt viðbrögð hestsins.