Tölt

Tölt

Tölt veitir íslenska hestinum sérstöðu. Þessi hestur ber sig frjálslega, með góðan fótaburð og í jöfnum fjórtakti.

 

Tölt er fjórtakta gangtegund með hliðstæðri hreyfingu án svifs. Tölt hefur átta hreyfistig. Fæturnir hreyfast í þessari röð: Vinstri aftur, vinstri fram, hægri aftur, hægri fram. Tölt hefur því sömu fótaröðun og fet. Munurinn liggur í því að tölt er hlaupandi gangtegund en fetið aftur á móti gangandi (eða stikandi).

Töltið er sú gangtegund sem skapar íslenska hestinum hvað mesta sérstöðu.

Tölt er einnig skilt skeiði og það þykir góð vísbending um töltgetu hests að í ættlegg hans liggi skeiðhæfileikar.

Bygging hestsins ræður því að nokkru hversu auðvelt hann á með að tileinka sér hliðstæða hreyfingu og ráða vel við þá söfnun sem töltið útheimtir. Þar ráða miklu jöfn hlutföll í byggingu, gott jafnvægi, sterkt bak og að hesturinn eigi auðvelt með að fella lend eins og kallað er og geti borið þunga sinn meira og lengur með afturfótum. Við það verður framhlutinn léttari og frjálsari, reising hans auðveldari og hesturinn getur lyft betur.

Tölt er riðið á mismunandi hraða. Það getur verið hæg ferð, milliferð og yfirferð. Í töltkeppni þarf hestur að geta sýnt þetta allt með jöfnum hraðabreytingum.

Á fallegu tölti ber hesturinn sig frjálslega, höfuð og háls í fallegri reisingu, lyftir framfótum vel og fer yfir í jöfnum fjórtakti.